Fótbolti

Kane segist alltaf vera með tapið fyrir Íslandi á bak við eyrað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane í baráttu við Kára Árnason í leik Englands og Íslands á EM 2016.
Harry Kane í baráttu við Kára Árnason í leik Englands og Íslands á EM 2016. getty/Foto Olimpik

Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins, segir að leikurinn gegn Íslandi í sextán liða úrslitum á EM 2016 sé ein af verstu stundum sínum á ferlinum.

„Þetta var einn af erfiðustu leikjum mínum í búningi enska landsliðsins,“ sagði Kane á blaðamannafundi í dag. England sækir Ísland heim í Þjóðadeildinni á morgun.

„En ég lærði mikið af þessum leik. Þetta var fyrsta stórmótið mitt og var enn frekar óreyndur. Ég hef alltaf reynt að taka leiki eins og þennan og læra af þeim. Það er ekki spurning að liðið hefur bætt sig á undanförnum fjórum árum,“ sagði Kane um leikinn fræga gegn Íslandi.

Tottenham-maðurinn segir að það sé ekki auðvelt að gleyma leikjum eins og gegn Íslandi.

„Þessir leikir eru þér alltaf ofarlega í huga og þú hugsar sífellt um hvað þú gast gert betur. En við höfum haldið áfram og erum á frábærum stað sem lið. Við erum með spennandi lið og hlökkum til að spila aftur,“ sagði Kane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×