Viðskipti innlent

Íslandsbanki og Landsbanki sölutryggja útboð Icelandair

Kjartan Kjartansson skrifar
Hlutafjárútboð Icelandair Group á að fara fram um miðjan þennan mánuð.
Hlutafjárútboð Icelandair Group á að fara fram um miðjan þennan mánuð. Vísir/Vilhelm

Icelandair Group hefur náð samningi við Íslandsbanka og Landsbanka um sölutryggingu á hlutafjárútboði félagsins. Með samningnum skuldbinda bankarnir sig til þess að kaupa nýtt hlutafé að andvirði allt að sex milljarða króna með fyrirvara um árangur útboðsins.

Með sölutryggingu er átt við samning milli fjármálafyrirtækis og útgefanda verðbréfa þar sem fjármálafyrirtækið skuldbindur sig til þess að kaupa þann hluta verðbréfa sem áskrift næst ekki fyrir í almennu útboði.

Endanleg fjárhæð sölutryggingar mun skiptast jafnt milli bankanna. Samningurinn er háður því skilyrði að áskriftir fjárfesta nái að lágmarki fjórtán milljörðum króna í útboðinu, að því er segir í tilkynningu frá Icelandair Group. 

Hluthafafundur hefur verið boðaður 9. september og stefnt er að því að hlutafjárútboð fari fram dagana fjórtánda og fimmtánda september. Markmiðið er að safna tuttugu milljörðum í nýtt hlutafé, og mögulega allt að þremur til viðbótar komi til umframeftirspurnar.

Frekari upplýsingar um sölutrygginguna munu verða gerðar aðgengilegar í skráningarlýsingu Icelandair Group sem birt verður í aðdraganda útboðsins.


Tengdar fréttir

Skoða að sölutryggja hlutafjárútboðið

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að það komi til greina og sé til skoðunar að sölutryggja fyrirhugað hlutafjárútboð Icelandair.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×