Erlent

Charlie Hebdo endurbirtir myndirnar af spámanninum

Samúel Karl Ólason skrifar
Laurent Sourisseau, skopmyndateiknari og ritstjóri Charlie Hebdo, á ráðstefnu í janúar. Sú ráðstefna var um málsfrelsi og var haldin í tilefni af því að fimm ár voru liðin frá árásinni á skrifstofu tímaritsins.
Laurent Sourisseau, skopmyndateiknari og ritstjóri Charlie Hebdo, á ráðstefnu í janúar. Sú ráðstefna var um málsfrelsi og var haldin í tilefni af því að fimm ár voru liðin frá árásinni á skrifstofu tímaritsins. EPA/Christophe Petit Tesson

Forsvarsmenn tímaritsins víðfræga Charlie Hebdo ætla að endurbirta umdeildar myndir af spámanninum Múhameð. Það verður gert vegna réttarhalda gegn fjölda aðila sem sakaðir eru um að hafa komið að árásinni gegn tímaritinu í janúar 2015. Þá réðust bræðurnir Said og Cherif Kouachi inn í húsnæði Charlie Hebdo í París og hófu skothríð. Þegar dagurinn var úti lágu tólf í valnum og þar af átta starfsmenn tímaritsins.

Sama dag var einnig ráðist á stórmarkað gyðinga í París. Kouachi bræðurnir voru svo felldir nokkrum dögum seinna.

Réttað er yfir fjórtán aðilum sem eru sagðir hafa hjálpað þeim bræðrum. Réttarhöldin hefjast 2. september og standa yfir til 10. nóvember og þar munu 140 vitni segja sögur sínar.

Myndirnar sem um ræðir voru upprunalega birtar í Jyllands-Posten árið 2005. Þær voru svo endurbirtrar af Charlie Hebdo árið 2006. Það leiddi til mikillar reiði meðal múslima og á endanum til árásarinnar. Al-Qaeda á Arabíuskaganum lýsti yfir ábyrgð á árásinni.

Nú eru myndirnar birtar á forsíðu tímaritsins og með textanum: „Allt þetta, bara vegna þessa“.

„Við munum aldrei gefast upp,“ skrifaði skopmyndateiknarinn Laurent Sourisseau, í leiðara Charlie Hebdo, samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Starfsmenn tímaritsins hafa margsinnis verið beðnir um að birta fleiri myndir af spámanninum en hafa hingað til neitað því. Það hafi aldri verið góð ástæða til þess, fyrr en nú. Þær voru þó einnig birtar aftur skömmu eftir árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×