Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlitið: Tryggt verði að ríkisaðstoðin fari aðeins í flugrekstur Icelandair

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Heildarframboð Icelandair minnkaði um 96% á milli ára.
Heildarframboð Icelandair minnkaði um 96% á milli ára. Vísir/Vilhelm

Samkeppniseftirlitið telur mikilvægt að tryggt verði að sú ríkisábyrgð sem fyrirhuguð er til Icelandair Group verði aðeins hægt að nýta til flugrekstrar Icelandair. Þá telur eftirlitið mikilvægt að tryggt sé að ríkisaðstoðin vinni ekki gegn nýrri samkeppni á íslenskum flugmarkaði og skoða þurfi hvort að kljúfa eigi starfsemi sem ekki á að njóta ríkisstuðnings sé klofin frá félaginu eða aðskilja hana fjárhagslega.

Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins við frumvarp til fjáraukalaga 2020 sem snýr að ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair Group.

Þar kemur fram að í ljósi þess að Eftirlitsstofnun Evrópu hafi samþykkt ríkisaðstoðina með ákveðnum fyrirmælum. Því sé ekki ágreiningur um að hún sé í samræmi við gildandi reglur ríkisaðstoð á evrópska efnahagssvæðinu.

Enn á ábyrgð stjórnvalda að draga úr skaðlegum áhrifum

Samkeppniseftirlitið bendir hins vegar á að samþykki ESA leysi „íslensk stjórnvöld hins vegar ekki undan þeirri ábyrgð að draga úr skaðlegum áhrifum viðkomandi ríkisaðstoðar og tryggja virka samkeppni í flugi til og frá landinu, flugtengdri þjónustu og á öðrum þeim sviðum ferðaþjónustu þar sem Icelandair starfar.“

Virk samkeppnu í flugi til og frá landinu sé ein forsenda lífsgæða í nútímasamfélagi, sem og efnahagslegrar velsældar og samkeppnishfæni landsins. Þá er bent á að það að Icelandair búi við virkt samkeppnislegt aðhald til framtíðar sé jafnframt ein meginforsenda þess að áformuð ríkisaðstoð nái tilgangi sínum.

Geti haft bein og óbein áhrif á fjölda fyrirtækja

Bendir Samkeppniseftirlitið á að Icelandair Group starfi á ýmsum mörkuðum sem varði flugtengdar rekstur og ferðaþjónustu. Það reki hótel, ferðaskrifstofu, bæði fyrir alferðir til útlanda sem og fyrir afþreyingu til erlendra ferðamanna, fraktflug til og frá Íslandi, innanlandsflug og flugafgreiðslu, auk flugfélagsins Icelandair.

Á þessum sviðum starfi fjölmörg fyrirtæki og bendir Samkeppniseftirlitið á að ríkisábyrgð til handa Icelandair geti haft bein og óbein áhrif á fjölda fyrirtækja á fjölbreyttum sviðum flugs, flugtengdrar starfsemi og ferðaþjónustu.

Með hliðsjón af þessu og öðru sem rakið er í umsögn eftirlitsins segir að það telji „mikilvægt að stjórnvöld tryggi að áformuð ríkisaðstoð til handa Icelandair afmarkist við flugrekstur félagsins, n.t.t. áætlunarflug til og frá landinu.“

Bendir Samkeppniseftirlitið einnig á að auki þurfi eftirfarandi atriði að koma til nánari athugunar stjórnvalda:

„Áhrif ríkisaðstoðarinnar á keppinauta Icelandair verði metin og tekin afstaða til þess hvort ástæða sé til stuðningsaðgerða gagnvart þeim til þess að ná fram þeim heildarmarkmiðum sem liggja til grundvallar áformaðri ríkisaðstoð.

Greina þarf til hvaða aðgerða stjórnvöld geta gripið til þess að draga úr aðgangshindrunum inn á viðkomandi markaði. Þannig getur komið til álita að ríkisaðstoð sé skilyrt, t.d. að því er varðar eftirfarandi þætti:

• Að skapað sé rými fyrir nýjan keppinaut í áætlunarflugi með framsali

afgreiðslutíma.

• Að viðskiptum sé beint til keppinauta sem starfa í flugtengdri starfsemi, s.s. í

flugafgreiðslu.

• Að starfsemi sem ekki á að njóta ríkisstuðnings sé klofin frá félaginu eða aðskilin

fjárhagslega.

• Að uppkaup á keppinautum sé óheimil á meðan stuðningsins nýtur við“

Umsögn Samkeppniseftirlitsins má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×