Erlent

Samsung erfinginn ákærður fyrir mútugreiðslur

Samúel Karl Ólason skrifar
Lee Jae-yong, Samsung erfinginn svokallaði.
Lee Jae-yong, Samsung erfinginn svokallaði. AP/Ahn Young-joon

Lee Jae-yong, Samsung erfinginn, eins og hann er oft kallaður, hefur verið ákærður fyrir markaðsmisnotkun í tengslum við sameiningu tveggja dótturfyrirtækja Samsung. Hann hafi framið svik við sameininguna og að markmiðið hafi verið að tryggja völd sín hjá fyrirtækinu. Tíu aðrir stjórnendur fyrirtækisins hafa sömuleiðis verið ákærðir vegna málsins.

Lee hefur stjórnað Samsung frá því faðir hans, Lee Kun-hee, fékk hjartaáfall árið 2014. Rannsókn á meintum brotum hans og annara hófst árið 2018. Í yfirlýsingum frá fyrirtækinu hefur öllum ásökunum verið hafnað.

Dómstólar hafa neitað að gefa út handtökuskipun gagnvart Lee og þykir það til marks um að málarekstur saksóknara í Seoul standi höllum fæti. Í júní lagði til að mynda nefnd til að hann yrði ekki ákærður vegna skorts á sönnunargögnum.

Lee var einnig ákærður árið 2017 fyrir að hafa greitt mútur til vinar Park Geun-hye, fyrrverandi forseta Suður-Kóreu. Honum var sleppt úr fangelsi í febrúar 2018 en málið leiddi til þess að Park hrökklaðist frá völdum.

Nokkrir forsetar landsins hafa heitið því að draga úr spillingu meðal nokkurra auðugra fjölskylda sem eru sagðar stjórna efnahagslífi landsins og hafa gífurleg áhrif. Faðir Lee var til að mynda sakfelldur fyrir mútugreiðslur tvisvar sinnum, en hann varð ekki einum degi í fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×