Enski boltinn

Verðandi leikmaður Man. Utd. er tengdasonur Dennis Bergkamp

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Donny van de Beek og Estelle Bergkamp eru par.
Donny van de Beek og Estelle Bergkamp eru par. getty/Kristy Sparow

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Donny van de Beek verði leikmaður Manchester United. Talið er að félagið greiði Ajax 40 milljónir punda fyrir hollenska landsliðsmanninn.

Tengdapabbi Van de Beek er mikil hetja hjá Arsenal, svo mikil að það er stytta af honum fyrir utan Emirates, heimavöll Arsenal. Þetta er Dennis Bergkamp sem varð þrisvar sinnum Englandsmeistari og þrisvar sinnum bikarmeistari með Arsenal.

Styttan af Dennis Bergkamp fyrir utan Emirates, heimavöll Arsenal.getty/Julian Finney

Bergkamp þjálfaði Van de Beek í unglingaakademíu Ajax og tengsl þeirra urðu svo enn nánari þegar Van de Beek byrjaði með dóttur Bergkamps, Estelle.

Van de Beek hefur leikið með Ajax allan sinn feril. Hann varð tvöfaldur meistari með liðinu tímabilið 2018-19. Þá komst Ajax einnig í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið tapaði naumlega fyrir Tottenham.

Talið er að Van de Beek muni leika í treyju númer 34 hjá United til heiðurs besta vini sínum, Abdelhak Nouri, sem fékk hjartaáfall í æfingaleik með Ajax fyrir þremur árum og varð fyrir alvarlegum heilaskaða. Nouri lék í treyju númer 34 hjá Ajax.

Van de Beek, sem er 23 ára, hefur leikið tíu leiki fyrir hollenska landsliðið og er í hollenska hópnum sem mætir Póllandi og Ítalíu í Þjóðadeildinni í þessum mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×