Fótbolti

City-menn mættir til Barcelona til að reyna að landa Messi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liggja leiðir Lionels Messi og Peps Guardiola aftur saman?
Liggja leiðir Lionels Messi og Peps Guardiola aftur saman? getty/Adam Pretty

Manchester City ætlar að bjóða Lionel Messi tveggja ára samning við félagið. Argentínumaðurinn vill komast frá Barcelona og hefur verið sterklega orðaður við City. Þar myndi hann hitta fyrir Pep Guardiola en Messi lék undir hans stjórn hjá Barcelona á árunum 2008-12.

Spænskir fjölmiðlar greina frá því að yfirmaður knattspyrnumála hjá City, Txiki Begiristain, sé staddur í Barcelona til að reyna að ganga frá samkomulagi við Messi um að koma til enska liðsins.

Begiristain þekkir vel til hjá Barcelona en hann er fyrrverandi leikmaður og starfsmaður félagsins.

Messi hefur ekki enn mætt til æfinga hjá Barcelona og virðist staðráðinn í að komast burt frá félaginu sem hann hefur leikið með allan sinn feril. Argentínski snillingurinn gæti fengið rúmlega milljón punda sekt frá Barcelona fyrir að skrópa á æfingar.

Faðir Messi, Jorge, fundar með forráðamönnum Barcelona á morgun þar sem mál sonar hans verða rædd.

Hinn 33 ára Messi er með riftunarákvæði í samningi sínum upp á litlar 630 milljónir punda. Messi lítur svo á að honum sé frjálst að fara frítt frá Barcelona vegna klásúlu í samningi. Spænska úrvalsdeildin hefur hins vegar blandað sér í málið og segir að það félag sem ætli að fá Messi verði að borga riftunarákvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×