Erlent

Franskur ofursti sakaður um að leka upp­­­lýsingum til Rússa

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Florence Parly er varnarmálaráðherra Frakklands.
Florence Parly er varnarmálaráðherra Frakklands. Zach Gibson/Getty

Ríkisstjórn Frakklands hefur látið hefja rannsókn á meintum öryggisbresti innan hersins. Nýleg skýrsla bendir til þess að háttsettur embættismaður innan franska hersins hafi stundað njósnir fyrir Rússland.

Varnarmálaráðherra Frakklands, Florence Parly, hefur lítið viljað tjá sig um málið. Þó hefur Guardian eftir henni að verið væri að rannsaka málið og embættismaðurinn gæti átt von á málaferlum á hendur sér.

Samkvæmt skýrslunni sem vísað er til í frétt Guardian var um að ræða undirofursta í franska hernum, sem staðsettur var á Ítalíu á vegum Atlantshafsbandalagsins (NATO). Maðurinn talar rússnesku og er sagður hafa sést með útsendara rússnesku herleyniþjónustunnar, GRU.

Maðurinn er grunaður um að hafa séð Rússum fyrir leynilegum gögnum sem innihéldu viðkvæmar upplýsingar. Eins og gefur að skilja hefur ekki verið gefið upp hvert nákvæmt innihald gagnanna er.

Þá er haft eftir heimildamanni innan franska dómskerfisins að maðurinn hefði verið ákærður og hnepptur í varðhald. Ákæran á hendur honum er sögð snúa að leka á „upplýsingum til erlendra stjórnvalda sem grafa undan hagsmunum þjóðarinnar.“

Maðurinn var handtekinn af frönsku leyniþjónustunni í Frakklandi, en hann var þá á leið aftur til Ítalíu eftir að hafa verið í fríi. Hann er í varðhaldi í París, höfuðborg Frakklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×