Fótbolti

Messi ætlar ekki að mæta í skimun og æfingar hjá Barcelona

Ísak Hallmundarson skrifar
Messi ætlar að komast burt frá Barcelona sama hvað það kostar.
Messi ætlar að komast burt frá Barcelona sama hvað það kostar. getty/Alex Livesey

Lionel Messi, einn besti fótboltamaður allra tíma, vill fara frá Barcelona áður en nýtt tímabil hefst, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðustu daga.

Það nýjasta í málinu er að Messi ætli ekki að mæta í skimun fyrir kórónuveirunni hjá Barcelona og þá mun hann ekki mæta á æfingar með liðinu.

Í samningi Argentínumannsins við Barcelona var ákvæði um að hann hefði getað rift samningi sínum við félagið þann 1. júní sl. og farið á frjálsri sölu. Tímabilið kláraðist hinsvegar ekki fyrr en um miðjan ágúst hjá Messi en hann trúir því að hann eigi rétt á að nýta ákvæðið vegna óhefðbundinna aðstæðna sem gerðu það að verkum að tímabilinu var seinkað í öllum bestu deildum Evrópu. 

Málið er nú í höndum lögfræðinga og lögfræðingar Messi ráðleggja honum einfaldlega að mæta hvorki á æfingar né í Covid-próf þar sem nýtt undirbúningstímabil er hafið og það gæti gert út um vonir Messi að komast frítt frá félaginu. 

Messi hefur spilað fyrir Barcelona í 17 ár og unnið 33 titla með félaginu. Núna virðist liðið hinsvegar komið á endastöð eftir að hafa verið niðurlægt í Meistaradeildinni þrjú ár í röð. Argentínumaðurinn vill því leita á nýjar slóðir en það stefnir í að endir hans hjá Barcelona verði ekki fallegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×