Fótbolti

„Hún ætlar að vinna þennan titil“

Ísak Hallmundarson skrifar

Sara Björk Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í Lyon leika til úrslita í Meistaradeild Evrópu á morgun. Liðið mætir gamla liðinu hennar Söru, Wolfsburg frá Þýskalandi.

„Við sáum auðvitað Söru Björk spila fyrir tveimur árum með Wolfsburg og þar meiðist hún í leiknum og þær tapa 4-1 og við fengum ekki að njóta hennar nema í 57 mínútur. Ég ætla að vona að við fáum að njóta hennar allan morgundaginn í öllum leiknum. Það skýrist, en þetta verður rosaleikur,“ sagði Helena Ólafsdóttir, þáttastjórnandi Pepsi Max markanna á Stöð 2 Sport um leikinn á morgun.

Sara Björk spilaði lengi með Wolfsburg áður en hún gekk í raðir Lyon í sumar. Það gæti nýst Lyon vel í leiknum hversu vel hún þekkir lið Wolfsburg.

„Það er örugglega gott, ekki það að þjálfarinn hafi ekki skoðað alla leiki út og inn. En hún stóð sig vel í síðasta leik þar sem hún byrjaði. Ég á því ekki von á öðru en að hún spili þennan leik og Sara hefur sagt það sjálf að það skipti engu máli þó hún sé að spila á móti gömlum félögum, hún ætlar bara að vinna þennan titil og það er búið að vera markmið hjá henni í mörg ár, þannig hún mun alveg mæta eins og hún þekki ekki liðið, ég held það,“ sagði Helena.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×