Fótbolti

Stuðningsmenn Barcelona mótmæltu: „Messi má ekki fara og allra síst á þennan hátt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Barcelona eru með böggum hildar þessa dagana.
Stuðningsmenn Barcelona eru með böggum hildar þessa dagana. getty/Robert Bonet

Stuðningsmenn Barcelona söfnuðust saman fyrir utan höfuðstöðvar félagsins í gær til að mótmæla.

Fótboltaheimurinn fór á hliðina þegar fréttir bárust af því að Lionel Messi, fyrirliði og markahæsti leikmaður í sögu Barcelona, óskaði eftir því að fara frá félaginu sem hann hefur verið hjá í nítján ár.

Stuðningsmenn Barcelona brugðust strax við og mótmæltu ástandinu hjá félaginu. Þeir krefjast þess að forseti Barcelona, Josep Bartomeu, stígi frá borði því það sé það eina sem gæti fengið Messi til að skipta um skoðun.

„Það skrítna er að Messi sé ekki þegar farinn. Það sem þessi stjórn hefur gert við félagið síðan 2010 er til skammar. Allt það verðmætasta fyrir félagið er farið: [Pep] Guardiola, [Johan] Cruyff og nú Messi. Þetta endar með tapinu skammarlega fyrir Bayern München og að Messi fer,“ sagði stuðningsmaður Barcelona sem tók þátt í mótmælunum í gær.

„Þessi stjórn er algjör hörmung. Þeir hafa eyðilagt allt og við þurfum öll að ganga í gegnum það núna. Það má ekki láta þetta gerast. Því þegar á botninn er hvolft er Messi það eina jákvæða sem við höfum. Þeir verða að gera eitthvað. Þeir ættu að segja af sér og reyna að tala við Messi. Þetta má ekki gerast. Hann má ekki fara og allra síst á þennan hátt. Hann er stofnun og tákn Barcelona,“ sagði annar stuðningsmaður Katalóníufélagsins.

Barcelona vann engan titil á tímabilinu 2019-20 og því lauk með tapinu háðulega fyrir Bayern München í Meistaradeild Evrópu, 8-2. Svo gæti farið að það yrði síðasti leikur Messis með Barcelona.

Klippa: Mótmælt í Barcelona

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×