Fótbolti

Átök Messi og Barcelona gætu endað fyrir dómstólum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi og málin hans hjá Barcelona gætu endað fyrir dómstólum.
Messi og málin hans hjá Barcelona gætu endað fyrir dómstólum. vísir/getty

Guillem Balague, einn virtasti sparkspekingurinn um spænska boltann, segir að mál Lionel Messi og Barcelona gætu endað fyrir dómstólum.

Eins og greint var frá á Vísi fyrr í dag vill Messi nú burt frá félaginu og vill að virkjuð verði klásúla sem gerir honum kleift að komast burt frá félaginu frítt.

„Sögurnar eru réttar,“ sagði Balague í samtali við BBC.

„Núna er 25. ágúst og Barcelona segir að þessi klásúla endi þann 10. júlí en eftir að tímabilið lengdist þá segir Messi að hann hafi til lok þessa mánaðar og það þýðir réttarmál.“

„Þetta verður ekki auðvelt að leysa og Messi er ekki tilbúinn að taka þátt í líkamlegum prófum Barcelona sem og æfingunum sem munu fram.“

Balague segir að Messi og Ronald Koeman hafi hist á dögunum þar sem Argentínumaðurinn á að hafa sagt nýja stjóranum að hann væri líklega á förum.

„Hann sagði Ronald Koeman, í einkakvöldverði, að hann sæi sig frekar fyrir utan félagið en áfram hjá félaginu,“ en gæti þetta farið alla leið fyrir dómstóla?

„Auðveldlega. Því þau skilja samninginn á mismunandi vegu. Barcelona segir: „Fyrirgefið en hann er með klásúlu um kaupverð upp á 700 milljónir evra og við viljum þetta allt.“ Messi vill meina að þetta standi ekki í samningnum.“

„Þetta er einnig barátta við félagið til þess að koma stjórninni í burtu og einnig forsetanum sem enginn er sáttur við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×