Fótbolti

Símtal Suarez og Koeman entist bara í eina mínútu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez segist eiga skilið meiri virðingu frá Barcelona en þetta.
Luis Suarez segist eiga skilið meiri virðingu frá Barcelona en þetta. Getty/Mateo Villalba/

Framtíð Luis Suarez hjá Barcelona er ráðin því nýr þjálfa liðsins, Ronald Koeman, vill ekki hafa hann í liðinu sínu á næstu leiktíð.

Ronald Koeman ætlar að hreinsa til hjá Barcelona og einn af þeim sem verður fórnað er úrúgvæski framherjinn Luis Suarez.

Barcelona vill losna við samning Luis Suarez í ár en samningurinn var til 30. júní 2021. Ronald Koeman hefur ekki áhuga á að nota aðalframherja liðsins síðustu ár. Barcelona þarf nú að fara í viðræður við leikmanninn eða hans fulltrúa til að loka samningnum.

Luis Suarez skoraði 21 mark í 36 leikjum fyrir Barcelona á leiktíðinni en virkaði þungur og formlítill eftir að boltinn byrjaði að rúlla á nú eftir kórónuveirufrí.

Luis Suarez er allt annað en sáttur með þetta og hefur sagt sína hlið í viðtali við spænskt blað.

Luis Suarez sagði katalónska íþróttablaðinu Sport frá því að Ronald Koeman hefði hringt í hann til að segja honum frá ákvörðun sinni.

Símtalið entist hins vegar bara í eina mínútu en það er ekkert annað í boði fyrir Suarez að sætta sig við þessa stöðu.

Hann bað ekki um neinar skýringar í símtalinu og endaði það strax. Suarez telur sig hafa unnið sér inn meiri virðingu en það að fá eins mínútna símtal frá verðandi þjálfara.

Suarez hefur spilað með Barcelona í sex ár en var nú sagt upp í síma. Luis Suarez er þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu Barcelona með 198 mörk í 283 leikjum. Hann hefur skorað 147 mörk fyrir Barcelona í spænsku deildinni og 25 mörk fyrir liðið í Meistaradeildinni.

Luis Suarez vann spænsku deildin fjórum sinnum með Barcelona, spænska bikarinn fjórum sinnum og svo Meistaradeildina á þrennutímabilinu 2014-15.

Luis Suarez er sagður vera mjög ósáttur með að vera gerður að blóraböggli fyrir það sem hefur farið úrskeiðis hjá Barcelona liðinu en það var augljóslega mikið að hjá félaginu og engum einum manni að kenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×