Íslenski boltinn

HK sækir leikmann úr Víking

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bjarni Páll gegn KR. Hann skoraði sigurmark Víkinga í leiknum.
Bjarni Páll gegn KR. Hann skoraði sigurmark Víkinga í leiknum. Vísir/Bára

Bjarni Páll Linnet Runólfsson hefur fært sig um set í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu. Hann hefur samið við HK eftir að hafa leikið með Víkingum allan sinn feril fyrir utan níu leiki með Þrótti Reykjavík á síðustu leiktíð.

Er þetta annar leikmaðurinn sem HK fær í félagaskiptaglugganum en miðvörðurinn Martin Rauschenberg kom á láni frá Stjörnunni og skoraði í sínum fyrsta leik er HK vann Fjölni 3-1.

Hinn 23 ára gamli Bjarni Páll hefur ekki fengið mörg tækifæri í liði Víkinga í sumar og aðeins tekið þátt í tveimur leikjum.

Bjarni getur brugðið sér í alla kvikinda líki og mögulega er honum ætlað að leysa hægri bakvarðarstöðuna hjá HK en félagið seldi Birkir Valur Jónsson, sinn eina hægri bakvörð, til Slóvakíu á dögunum. Hefur Valgeir Valgeirsson leyst hægri bakvörðurinn í síðustu leikjum en Brynjar Björn Gunnarsson – þjálfari liðsins – vill eflaust koma Valgeiri framar á völlinn þar sem hæfileikar hans nýtast betur.

Alls hefur Bjarni Páll leikið 53 leiki í deild og bikar. Í þeim hefur hann skorað þrjú mörk, þar á meðal sigurmark Víkings gegn KR sumarið 2018.

HK er í 9. sæti deildarinnar og mætir FH í Kaplakrika annað kvöld. Reikna má með að Bjarni Páll verði í leikmannahópi liðsins en hann fær leikheimild á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×