Erlent

Einangrun Bandaríkjanna bersýnileg í deilunum um Íran

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra, hefur gagnrýnt bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu harðlega fyrir að fylgja þeim ekki eftir.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra, hefur gagnrýnt bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu harðlega fyrir að fylgja þeim ekki eftir. AP/Mike Segar

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er reiður út í hefðbundin bandalagsríki Bandaríkjanna í Evrópu og sakar þau um að vera með leiðtogum Íran í liði. Bretland, Frakkland og Þýskaland gáfu út í gær að Bandaríkin hefðu ekki rétt á því að beita sérstöku ákvæði í kjarnorkusamkomulaginu svokallaða, þar sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefði dregið ríkið frá samkomulaginu.

Samkomulagið var gert á milli Íran, Bandaríkjanna, Kína, Rússlands, Bretlands, Frakklands og Þýskalands og var því ætlað að binda enda á kjarnorkuvopnaáætlun Íran. Í skiptum fyrir að þvingunum og öðrum refsiaðgerðum yrði aflétt samþykktu yfirvöld Íran að hætta við þróun kjarnorkuvopna og hleypa eftirlitsaðilum í landið.

Í samkomulaginu var ákvæði um að ef Íran væri ekki að framfylgja því væri hægt að beita öllum fyrri þvingunum gegn Íran aftur, að formlegri beiðni eins aðildarríkis.

Ríkisstjórn Trump hefur varið miklu púðri í að reyna að einangra Írana á nýjan leik. Í gær fór Pompeo á fund öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hélt því fram að Bandaríkin væru enn aðilar að samkomulaginu. Því höfnuðu Evrópuríkin áðurnefndu alfarið. Rússar hafa sömuleiðis sagt aðgerðir Pompeo „fáránlegar“.

Sjá einnig: Trump dregur Bandaríkin út úr kjarnorkusamningnum við Íran

Þrátt fyrir það lagði Pompeo fram formlega kröfu um að þvingunum yrði beitt gegn Íran á nýjan leik og er útlit fyrir frekari deilur milli Bandaríkjanna annars vegar og Bretlands, Frakklands og Þýskalands hins vegar.

Pompeo gagnrýndi í leiðinni þessi ríki og sagði þau hafa tekið sér stöðu með æðstuklerkum Íran.

„Aðgerðir þeirra ógna íbúum Írak, Jemen, Líbanon, Sýrlandi og þeirra eigin borgurum,“ sagði Pompeo. Hann sagði einnig að Bandaríkin myndu ekki reyna að sefa leiðtoga Íran og myndu leiða baráttuna gegn þeim, samkvæmt frétt Guardian.

Einangrun Bandaríkjanna í málefnum Íran var augljós í síðustu viku þegar öryggisráðið greiddi atkvæði um að framlengja vopnasölubann gagnvart Íran, sem rennur út í október. Eina ríkið sem studdi Bandaríkin í þeirri atkvæðagreiðslu var Dóminíska lýðveldið.

Pompeo sagði þá að það væru mikil mistök að framlengja vopnasölubannið ekki áfram og ítrekaði að Bandaríkin myndu aldrei leyfa Íran að kaupa eða selja hefðbundin vopn eins og skriðdreka, samkvæmt frétt BBC.

Frá því að Bandaríkin slitu sig frá samkomulaginu og byrjuðu að beita eigin þvingunum gegn Íran hefur samkomulagið verið nærri því að liðast upp en Evrópuríkin hafa reynt að halda því virku.

Yfirvöld í Íran hafa þó hætt að framfylgja nokkrum skilyrðum samkomulagsins, vegna einhliða aðgerða Bandaríkjanna. Til að mynda eru Íranir að framleiða meira auðgað úran en þeim er leyfilegt samkvæmt samkomulaginu. Það úran er hægt að nota bæði til orkuframleiðslu og í kjarnorkuvopn.

Bretar, Frakkar og Þjóðverjar virkjuðu sjálfir í byrjun ársins ágreiningsákvæði samkomulagsins vegna aðgerða Írana, með því markmiði að þvinga þá til að fylgja skilmálum þess á nýjan leik.

Það ferli er enn í gangi en gæti að endingu leitt til þess að ríkin beiti Íran öllum eldri þvingunum á nýjan leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×