Viðskipti innlent

Icelandair íhugar að fella niður fleiri ferðir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vél Icelandair Cargo kemur inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli.
Vél Icelandair Cargo kemur inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli. Vísir/vilhelm
Icelandair segist fylgjast vel með útbreiðslu kórónuveirunnar, enda hefur hún haft teljandi áhrif á eftirspurn eftir flugi um allan heim. Nú þegar hefur flugfélagið ákveðið að hætta við 80 flugferðir í mars og apríl en í tilkynningu til Kauphallarinnar í morgun segist Icelandair ekki getað útilokað að fleiri ferðum verði aflýst.

Félagið hafði fyrirhugað að fljúga um 3500 ferðir næstu tvo mánuðina. Fyrrnefndar 80 ferðir sem hafa verið felldar niður jafngilda því um 2 prósentum allra ferða í mars og apríl. Í tilkynningunni til Kauphallarinnar segist Icelandair vera að endurmeta flugáætlun sína í ljósi minnkandi eftirspurnar og færri bókana.

Sjá einnig: Flugfélög búi sig undir þúsunda milljarða högg

Fari svo að fleiri ferðir verði felldar niður hyggst Icelandair greina frá því svo fljótt sem auðið er. Félagið segir að slíkum niðurfellingum væri ætlað að vernda fjárhagslega hagsmuni fyrirtækisins.

„Icelandir Group mun áfram fylgjast með gangi mála og vinnur náið með yfirvöldum. Félagið fylgir leiðbeiningum þeirra til að tryggja heilsu viðskiptavina þess og starfsmanna,“ segir í tilkynningunni áður en drepið er á mikilvægi sveigjanlegs leiðakerfis, sem forstjóri Icelandair hampaði að sama skapi á föstudaginn síðastliðinn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×