Viðskipti innlent

Munu horfa til þess að styðja viðskiptavini Landsbankans í erfiðu árferði

Birgir Olgeirsson skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. Vísir/Einar
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir bankann í stakk búinn að mæta áföllum viðskiptavina vegna þess ástands sem hefur skapast vegna kórónuveirunnar.

„Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga að ástandið eins og það er núna eftir nóttina, við lítum á það sem tímabundið ástand. Að sjálfsögðu munum við horfa til þess að styðja við okkar viðskiptavini, bæði fyrirtæki og einstaklinga, muni til þess koma,“ segir Lilja.

Hún segir stöðu bankans gríðarlega sterka.

„Við erum nýbúin að gefa út okkar ársuppgjör. Eiginfjárstaða bankans er mjög sterk, lausafjárstaða bankans er mjög sterk og við höfum getu til að taka á móti áföllum ef þau verða. En ég legg áherslu á að þetta er tímabundið ástand sem við erum að horfa á og við munum takast á við þetta dag frá degi og styðja okkar viðskiptavini eins og hægt er. “

Hún segir bankann í góðu samstarfi við yfirvöld og Seðlabanka Íslands. „Seðlabankinn er þegar búinn að setja fram aðgerðir sem hjálpa bönkum að takast á við tímabundið minna innflæði vegna afborgana lána. Þannig að við værum í stöðu til dæmis til að fresta greiðslum þegar viðskiptavinur er í erfiðleikum. Slíka úrræði eigum við til og erum tilbúin að nota.“

Það er þó nánast ógjörningur að teikna upp sviðsmyndir eins og staðan er í dag.

„Við vorum að horfa á sviðsmyndir varðandi Covid-veiruna í gær. Í nótt breyttist staðan mikið þegar fréttir bárust frá Bandaríkjunum. Þannig að í dag er ekki dagurinn til að teikna upp áreiðanlega sviðsmynd. En það er gott að staða bankans er þetta sterk til þess að við getum mætt viðskiptavinum okkar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×