Erlent

Biden fær byr í seglin

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden mun líklegast fá fleiri landsfundarfulltrúa en Sanders eftir ofurþriðjudag.
Joe Biden mun líklegast fá fleiri landsfundarfulltrúa en Sanders eftir ofurþriðjudag. AP/Chris Carlson

Forval Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hefur tekið stakkaskiptum á einungis nokkrum dögum. Bernie Sanders og Joe Biden ráða nú alfarið ferðinni eftir ofurþriðjudaginn svokallaða í gær. Enn er staðan ekki að fullu ljós en ljóst er að Biden hafi fengið flest atkvæði í fleiri ríkjum en Sanders er þó líklegur til að bera sigur úr bítum í Kaliforníu og mun hann þá fá þaðan mikinn fjölda landsfundarfulltrúa.

Biden mun þó líklegast fá fleiri landsfundarfulltrúa en Sanders eftir kvöldið þar sem atkvæðagreiðslur fóru fram í fjórtán ríkjum.

Biden er með mjög naumt forskot í Texas þegar búið er að telja um 65 prósent atkvæða. Kjósendur í ríkinu hafa þó kvartað mikið vegna langra biðraða og eru einhverjir kjörstaðir opnir rúmum fimm tímum eftir að þeir áttu að loka. Svipaða sögu er að segja frá Kaliforníu þar sem staðan er þó ekki jafn slæm og um mun færri kjörstaði er að ræða.

Sjá einnig: Tveggja turna tal á „ofurþriðjudegi“

Sanders og Biden skutu á hvorn annan í ræðum í nótt.

„Fólk er að tala um byltingu. Við stofnuðum hreyfingu og jukum kjörsókn,“ sagði Biden.

Sanders sagði ekki hægt að sigra Donald Trump með „sömu gömlu stjórnmálunum“. Hann fór yfir hvar hann og Biden væru ósammála og sagði að forvalið snerist um hugmyndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×