Erlent

Verður lengsta hjóla­brú í Evrópu

Atli Ísleifsson skrifar
Teikningar af brúnni.
Teikningar af brúnni.

Framkvæmdir eru hafnar í Hollandi við smíði lengstu brúar Evrópu sem sérstaklega er ætluð hjólandi og gangandi vegfarendum. Blauwe Loper-brúin (í. Bláa teppið) í Gröningen-héraði verður samkvæmt teikningum 800 metrar að lengd.

Brúin mun tengja saman bæina Winschoten og Blauwestad og liggja yfir stöðuvatn, skipaskurð, hraðbraut og náttúruverndarsvæði.

Í frétt Guardian segir að áætlanir geri ráð fyrir að brúin verði á endanum um kílómetri að lengd. Er áætlað að fyrsta áfanga verði lokið um næstu jól.

Kostnaður við smíði brúarinnar er áætlaður um 6,5 milljónir evra, um 930 milljónir króna. Hækkunin á brúnni verður mest 2,5 gráða svo hún ætti að vera þægileg yfirferðar fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur.

LED-lýsing á brúnni verður þannig hönnuð að hún eigi einnig að nýtast leðurblökum að finna leiðina milli náttúruverndarsvæðisins undir brúnni og að Oldambtmeer-stöðuvatninu skammt frá.

Brúin verður smíðúð úr timbri frá Gabon og er áætlað að hún eigi að endast í um áttatíu ár.

Lengsta hjólabrú álfunnar er nú í Sölvesborg í Svíþjóð, en sú er 756 metrar að lengd. Lengsta hjólabrú heims er hins vegar í Xiamen í Kína en sú er heilir 7,6 kílómetrar að lengd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×