Viðskipti innlent

Icelandair aflýsir 80 ferðum vegna veirunnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vél Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Vél Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Vísir/KMU

Vegna áhrifa kórónuveirunnar á minnkandi eftirspurn hefur Icelandair tekið ákvörðun um að aflýsa um 80 flugferðum í mars og apríl. Það er um 2 prósent af flugáætlun félagsins þessa tvo mánuði. Áætlaðar flugferðir félagsins í mars og apríl eru rúmlega 3.500 samtals.

„Félagið er nú að greina hugsanlegar sviðsmyndir og móta aðgerðir til að draga úr þeim áhrifum sem þessi þróun kann að hafa á starfsemi félagsins,“ að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

Sjá einnig: Flugfélög búi sig undir þúsunda milljarða högg

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, að nú standi félagið frammi fyrir óvissu vegna útbreiðslu veirunnar. Sveigjanleiki leiðakerfisins hafi verið lengi einn helsti styrkleiki Icelandair og geri félaginu kleift að bregðast hratt við breyttum aðstæðum.

„Heilsa og öryggi starfsmanna og viðskiptavina okkar er ávallt forgangsmál. Við vinnum nú að því að greina stöðuna, meta hugsanleg áhrif og mögulegar aðgerðir. Áhersla okkar er á að lágmarka áhrif á viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa félagsins.“

Farþegum fjölgaði

Í sömu tilkynningu kemur fram að Icelandair hafi flutt 131 þúsund farþega til Íslands í febrúar, sem er um 27 prósent aukning á milli ára á meðan farþegum frá Íslandi fjölgaði um 4 prósent.

„Icelandair hefur á undanförnum mánuðum lagt áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands og flutningatölur félagsins endurspegla þá stefnu félagsins. Farþegum Icelandair til Íslands hefur fjölgað um 23% á milli ára fyrstu tvo mánuði ársins. Tengifarþegum fækkaði um 17% á milli ára í febrúar. Sætanýting félagsins er um 75% fyrstu tvo mánuði ársins og hefur aukist um eitt prósentustig á milli ára,“ segir þar jafnframt.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×