Erlent

Utan­ríkis­ráð­herra Pól­lands hættir

Atli Ísleifsson skrifar
Jacek Czaputowicz hafði gegnt embætti utanríkisráðherra Póllands frá janúar 2018.
Jacek Czaputowicz hafði gegnt embætti utanríkisráðherra Póllands frá janúar 2018. Getty

Jacek Czaputowicz hefur sagt af sér embætti sem utanríkisráðherra Póllands. Afsögnin kemur á sama tíma og pólsk stjórnvöld þrýsta á að taka að sér leiðandi hlutverk í viðbrögðum Evrópusambandsins vegna ástandsins í nágrannalandinu Hvíta-Rússlandi.

Czaputowicz gaf í skyn í júlí að hann gæti brátt sagt af sér eftir að leiðtogar stjórnarflokksins, Laga og réttlætis (PiS) gáfu í skyn að von væri á hrókeringum í ríkisstjórn landsins og ráðherrum mögulega fækkað.

Miklar deilur hafa staðið í Hvíta-Rússlandi síðustu dagana í kjölfar forsetakosninganna þar sem landskjörstjórn þar í landi sagði forsetann Aleksandr Lúkasjenkó hafa hlotið um 80 prósent atkvæða. Hafa mikil mótmæli verið á götum borga og fjölmargir fordæmt framkvæmd kosninganna og þá hefur ESB greint frá því að viðskiptaþvingunum verði beitt gegn Hvíta-Rússlandi.

Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi hafa kennt afskiptum erlendra aðila um mótmælin og sagði Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, að hann hefði ekki áhyggjur af stöðunni en að ESB skyldi vinna að því að koma í veg fyrir að Hvíta-Rússland væri svo háð Rússlandi.

Afsögn utanríkisráðherrans nú er önnur afsögn pólsks ráðherra á örfáum dögum, en fyrr í vikunni sagði heilbrigðisráðherrann Lukasz Szumowski, af sér í kjölfar fjölgunar kórónuveirusmita í landinu.

Jacek Czaputowicz hafði gegnt embætti utanríkisráðherra Póllands frá janúar 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×