Sport

NFL-leikmaður gripinn með 70 kíló af maríjúana

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Robinson í leik með Cleveland.
Robinson í leik með Cleveland. vísir/getty

Greg Robinson, leikmaður Cleveland Browns í NFL-deildinni, verður líklega ekki að spila neitt næsta vetur. Fastlega má gera ráð fyrir því að hann muni þá sitja í steininum.

Robinson var handtekinn í Texas í gær ásamt tveimur mönnum. Þeir voru með 71 kíló af maríjúana í bílnum. Allir voru þeir handteknir en ljóst þykir að þeir hafi ætlað sér að selja efnið.

Annar félaga Robinson var Tyreke Bray en sá spilaði í þrjú ár með Indianapolis Colts. Báðir spiluðu þeir fyrir Auburn-háskólann.

Þriðji aðilinn var Uber-bílstjóri sem hafði ekki hugmynd um að bíllinn væri fullur af grasi. Það var sannað með textaskilaboðum. Honum var því sleppt.

Robinson og Bray eiga aftur á móti yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi en afar ólíklegt er að þeir fái svo þungan dóm.

Robinson var valinn annar í nýliðavalinu árið 2014. Samningur hans við Cleveland er að renna út og framtíðin var þegar í óvissu hjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×