Erlent

Ekkert búið að ákveða um Euro­vision vegna kórónu­veirunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Duncan Laurence flytur sigurlagið í Eurovision á sviðinu í Tel Aviv í Ísrael í maí í fyrra.
Duncan Laurence flytur sigurlagið í Eurovision á sviðinu í Tel Aviv í Ísrael í maí í fyrra. Vísir/getty

Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) hefur ekki tekið neinar ákvarðanir um Eurovision í tengslum við kórónuveiruna, sem nú dreifist hratt um Evrópu. Þegar hefur þurft að aflýsa viðburði á vegum Eurovision vegna veirunnar á Ítalíu.

Gripið hefur verið til umfangsmikilla aðgerða vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid19 um allan heim. Veiran breiðist nú hratt um Evrópu en á síðustu dögum hafa komið upp smit í Króatíu, Austurríki og Sviss. Smitin eru rakin til Ítalíu, þar sem nokkur hundruð eru smitaðir og heilu bæirnir hafa verið settir í sóttkví.

Fylgjast náið með þróun mála

Eurovision verður haldin í Rotterdam í Hollandi dagana 12., 14. og 16. maí. EBU segir í svari við fyrirspurn Vísis að sambandið fylgist náið með þróun mála er varða veiruna. Gripið verði til nauðsynlegra ráðstafana samkvæmt leiðbeiningum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og heilbrigðisyfirvöldum í viðeigandi löndum.

Þá var ákveðið í samráði við yfirvöld á Ítalíu að fresta Dögum stafrænnar fjölmiðlunar (e. Digital Media Days), viðburði á vegum Eurovision sem fara átti fram dagana 12. og 13. mars í Mílanó. Veiran hefur breiðst afar hratt út í landinu, líkt og áður segir, og hafa

„Við munum halda áfram að fylgjast með þróun mála annars staðar í Evrópu. Hvað sem því líður er ekki tímabært að við tjáum okkur um aðrar mögulegar sviðsmyndir.“

Sjá einnig: Smituðum fjölgar í Evrópu og víðar

Fresta hefur þurft skipulögðum mannamótum og stórum viðburðum víða í heiminum vegna kórónuveirunnar. Þannig hefur ítalska knattspyrnusambandið þurft að fresta leikjum í ítölsku deildinni og halda kappleiki fyrir luktum dyrum.

Þá hafa verið vangaveltur uppi um hvort fresta þurfi Ólympíuleikunum í Tókýó í Japan í sumar. Heilbrigðisráðherra Japans sagði á blaðamannafundi í gær að ekki væri tímabært að velta því upp hvort aflýsa ætti leikunum. Stefna stjórnvalda væri að gera ráðstafanir vegna veirunnar strax. Íslendingar munu velja fulltrúa sinn í Eurovision árið 2020 næstkomandi laugardag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×