Sport

Brady sagður íhuga alvarlega að yfirgefa Patriots

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Brady í leik með Patriots.
Brady í leik með Patriots. vísir/getty

Leikstjórnandinn sigursæli, Tom Brady, hefur ekki enn ákveðið hvað hann gerir næsta vetur en nú berast tíðindi af því að hann gæti söðlað um eftir að hafa leikið fyrir New England Patriots allan sinn feril.

Íþróttafréttamaðurinn Jeff Darlington hjá ESPN segist hafa heimildir fyrir því að Brady hafi tjáð fólki í kringum sig að hann íhugi alvarlega að skipta um félag.

Brady er að renna út á samningi hjá Patriots og getur þar af leiðandi samið við hvaða lið sem er. Hann er sagður skoða landslagið þessa dagana með það í huga að prófa að spila fyrir annað lið áður en hann hættir.

Brady má ekki byrja að tala við önnur lið formlega fyrr en 16. mars. Hann hefur ekki skipulagt neinn fund með Bill Belichick, þjálfara Patriots, eða öðrum hjá félaginu.

Leikstjórnandinn hefur spilað fyrir Patriots í 20 ár og unnið Super Bowl sex sinnum. Oftar en nokkur annar leikmaður í sögu deildarinnar.

Brady verður 43 ára gamall í ágúst og aldurinn virtist há honum á nýafstaðinni leiktíð.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×