Erlent

Asbest og skemmdir frá seinna stríði hækka reikninginn

Atli Ísleifsson skrifar
Elísarbetarturn,sem hýsir Big Ben, er þakinn stillönskum þessa dagana.
Elísarbetarturn,sem hýsir Big Ben, er þakinn stillönskum þessa dagana. Getty

Kostnaður við endurbætur á Elísabetarturni, sem hýsir bjölluna Big Ben í bresku höfuðborginni London, stefnir í að verða mun meiri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Þörf er á 18,6 milljónum punda til viðbótar við verkið, um þrjá milljarða króna.

Aukinn kostnaður er rakinn til uppgötvunar á asbesti í turninum og víðtækar sprengjuskemmdir frá tímum seinna stríðs.

Sky News segir frá því að reikningurinn muni nú hækka um þriðjung, frá 61,1 milljónum punda í 79,7 milljónir punda, um þrettán milljarða króna.

Ian Ailles, framkvæmdastjóri þinghússins, segir að vinnan við endurbæturnar hafi reynst mun flóknari en upphaflega var talið. Vegna staðsetningar og eðli mannvirkisins hafi reynst ómögulegt að meta raunverulegt umfang yfirvofandi framkvæmda fyrr en búið væri að koma upp stillönsum.

Framkvæmdir hófust við endurbæturnar árið 2017 og á þeim samkvæmt áætlunum að ljúka árið 2021.

Turninn er 96 metra hár og var vígður árið 1859.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×