Erlent

Fundu fjöldagrafir með fleiri en sex þúsund líkum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum gegn ofbeldisverkum í Búrúndí sem voru haldin í Kenía árið 2015.
Frá mótmælum gegn ofbeldisverkum í Búrúndí sem voru haldin í Kenía árið 2015. Vísir/EPA

Sannleiks- og sáttanefnd Sameinuðu þjóðanna í Búrúndí segist hafa fundið sex fjöldagrafir með fleiri en sex þúsund líkum í Karusi-héraði. Líkfundurinn er sá stærsti frá því að yfirvöld hófu marvisst að opna fjöldagrafir í janúar.

Auk 6.032 líka fundust þúsundir byssukúlna í gröfunum sex. Föt, gleraugu og talnabönd voru notuð til að bera kennsl á sum líkanna, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Pierre Claver Ndayicariye, formaður nefndarinnar, tengdi fjöldagrafirnar við fjöldamorð á Hútum. Um þrjú hundruð þúsund íbúar Búrúndí féllu í borgarastríði sem bar keim af kynþáttastríði á milli Hútúmanna annars vegar og Tútsímanna hins vegar.

Sannleiksnefndin var stofnuð til að rannsaka voðaverk sem áttu sér stað frá 1885, þegar Evrópumenn komu fyrst til Austur-Afríkulandsins, fram til 2008 þegar friðarsamningur batt endi á borgarastríðið tók gildi. Alls hafa um fjögur þúsund fjöldagrafir fundist um allt landið og hafa kennsl verið borin á fleiri en 142.000 manns sem voru grafnir í þeim.

Rannsókn nefndarinnar nær aðeins að litlu leyti til valdatíðar Pierre Nkurunziza, núverandi forseta, sem tók við völdum árið 2005. Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að mannréttindabrotum gæti fjölgað í Búrúndí í aðdraganda kosninga í maí. Hundruð landsmanna hafa fallið í átökum við öryggissveitir frá því að Nkurunziza bauð sig fram til forseta í þriðja skipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×