Innlent

Draga lærdóm af óveðrinu mikla

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Brotnir rafmagnsstaurar fyrir utan Dalvík eftir óveður í desember.
Brotnir rafmagnsstaurar fyrir utan Dalvík eftir óveður í desember. Vísir/Egill

Óveðrið mikla sem reið yfir landið í desember var gert upp á íbúafundi á Dalvík á miðvikudaginn. Viðbragðshópur hefur verið stofnaður ef ske kynni að viðlíka aðstæður skapast aftur.

Dalvíkurbyggð var einna verst út í óveðrinu mikla í desember. Víða varð rafmagnslaust dögum saman þar sem rafínur gáfu sig, sum staðar varð hitalaust og fjarskiptakerfi datt út. Til að mynda varð fimm manna fjölskylda í botni Svarfaðardals algjörlega sambandslaus við umheiminn í sólarhring.

Að undanförnu hafa Dalvíkingar og nærsveitungar lagt vinnu í að rýna í hvað betur hefði mátt fara.

Katrín Sigurjónsdóttir er sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar.Vísir/Tryggvi Páll

„Við sáum alveg að við getum bætt okkur, til dæmis varðandi vettvangsstjórnun á heimavelli. Við vorum með aðgerðarstjórnina á Akureyri og það tókst vel en við hefðum getað bætt hér að vera með hóp viðbragðsaðila í sveitarfélaginu sjálfu sem að þekkir aðstæður íbúana og þekkir til eins og lófann á sér,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar.

Úr því hefur nú verið bætt.

„Og þar hefðum við geta bætt okkur varðandi upplýsingagjöf og upplýsingaöflun og við höfum tekið á því. Við höfum stofnað hérna hóp viðbragsaðila sem mun funda reglulega,“ segir Katrín.

Nú var þetta mikið óveður, mikið tjón á mörgum stöðum en er eitthvað jákvætt sem kom út úr þessu öllu saman?   

„Já, við getum sagt það að við fundum það vel á meðan á óveðrinu stóð og eftir hvað samstaða fólks og náungakærleikurinn er ríkjandi í samfélaginu. Við vissum það reyndar fyrir að það var mikill mannauður hérna en við urðum áþreifanlega vör við það að fólk stóð þétt og vel saman og tók á þessu öllu saman af mikilli auðmýkt og æðruleysi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×