Erlent

Setja upp sóttkví í Síberíu vegna veirunnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Kínverskir ferðamenn með andlitsmaska í Pétursborg í Rússlandi. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Kínverskir ferðamenn með andlitsmaska í Pétursborg í Rússlandi. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/EPA

Rússnesk yfirvöld hafa sett upp sóttkví í Tjumen-héraði í Síberíu þangað sem rússneskir borgarar sem dvöldu í borginni þar sem nýtt afbrigði kórónaveiru kom fyrst upp í Kína verða vistaðir. Fólkinu verður haldið í sóttkvíinni í fjórtán daga.

Tatiana Golikova, aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, sagði að hópur Rússa sem yfirvöld sóttu til Wuhan, borgarinnar þar sem kórónaveiran skaut fyrst upp kollinum, væri talinn við góða heilsu, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Fleiri ríki vinna nú að því að flytja borgara sína frá Wuhan eða hafa þegar gert það. Alls hefur nú á fimmta hundrað manna látið lífið af völdum veirunnar og tugir þúsunda hafa smitast, fyrst og fremst í Kína. Tilkynnt var um fyrsta dauðsfallið vegna Wuhan-veirunnar í Hong Kong í dag. Sá látni var 39 ára gamall karlmaður sem hafði heimsótt Wuhan í janúar.

Í Japan var skemmtiferðaskip með um þrjú þúsund manns um borð sett í sóttkví eftir að karlmaður frá Hong Kong sem sigldi með skipinu í síðasta mánuði greindist með kórónaveiruna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×