Erlent

120 slasaðir eftir að flug­vél rann út af flug­braut og brotnaði í hluta

Kjartan Kjartansson og Eiður Þór Árnason skrifa
Farþegaflugvélin stórskemmdist þegar hún rann út á engi við hlið flugbrautarinnar.
Farþegaflugvélin stórskemmdist þegar hún rann út á engi við hlið flugbrautarinnar. Vísir/Getty

Talið er að 120 farþegar hafi slasast þegar farþegaþota rann út af flugbraut og brotnaði í hluta á flugvelli í Istanbúl í Tyrklandi í dag. Samkvæmt upplýsingum yfirvalda voru á annað hundrað manns um borð í vélinni. Enginn lést í slysinu.

Flugvélin var á vegum lággjaldaflugfélagsins Pegasus og kom frá borginni Izmir til lendingar á Sabiha Gocken-flugvellinum í Istanbúl, að sögn AP-fréttastofunnar. Við lendinguna rann vélin út af flugbrautinni og brotnaði í að því er virðist þrjá hluta á engi.

Farþegar sáust skríða út úr sprungum í flakinu á sjónvarpsmyndum. Tyrknesk sjónvarpsstöð fullyrti að kviknað hefði í flakinu en að slökkt hefði verið í eldinum.

Vindasamt og mikil rigning var á svæðinu þegar atvikið átti sér stað en samkvæmt þarlendum samgönguyfirvöldum átti vélin erfitt með lendingu og tókst ekki að hægja á ferð hennar á flugbrautinni með fyrrnefndum afleiðingum.

Talið er að um 177 manns hafi verið um borð í vélinni, þar af sex í áhöfn, en hún er af gerðinni Boeing 737. Flugvellinum var lokað vegna slyssins og umferð beint á aðalflugvöll borgarinnar.

Slysið á sér stað einungis um mánuði eftir að önnur vél í eigu sama flugfélags með 164 farþega um borð rann út af flugbraut á sama flugvelli þann 7. janúar síðastliðinn. Engum varð meint af í því óhappi.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 18:27.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×