Viðskipti innlent

365 fær ekki að fara með tveggja milljóna orlofsdeilu fyrir Hæstarétt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir er eigandi 365 hf.
Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir er eigandi 365 hf. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur hafnað málskotsbeiðni 365 hf um að rétturinn taki fyrir launadeilumál fyrirtækisins við fyrrverandi framkvæmdastjóra sem hætti störfum fyrir fjórum árum. Hæstiréttur telur málið ekki hafa verulega almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni.

Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu-, sölu- og markaðsmála, hætti störfum hjá 365 í lok mars 2016. Hún var með sex mánaða uppsagnarfrest og hafði við uppsögnina áunnið sér þrjátíu daga orlofsrétt.

Ágreiningur kom upp á milli hennar og 365 um það hvort dagarnir þrjátíu væru hluti af sex mánaða uppsagnarfresti eða ekki. Neitaði 365 að greiða Petreu orlofið.

Fór málið fyrir héraðsdóm og svo Landsrétt. Í báðum tilfellum féll dómurinn Petreu í vil og var 365 dæmt til að greiða Petreu rúmar 2,2 milljónir króna auk dráttarvaxta.

Í ákvörðun Hæstaréttar segir að ekki verði séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eins og lögmaður 365 hf hélt fram. Var beiðninni því hafnað.

365 hf átti um árabil Fréttablaðið, Stöð 2, Bylgjuna og fleiri miðla. Stærstur hluti var seldur til Sýnar árið 2017 nema Fréttablaðið sem Ingibjörg Pálmadóttir, forstjóri og eigandi 365 hf, seldi í fyrra.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×