Erlent

Banda­rísk stjórn­völd vinna að með­ferð við Wu­han-veirunni

Eiður Þór Árnason skrifar
Yfir fimm hundruð manns hafa nú látist af völdum Wuhan-kórónaveirunnar.
Yfir fimm hundruð manns hafa nú látist af völdum Wuhan-kórónaveirunnar. Getty/picture alliance

Bandarísk stjórnvöld vinna nú að því í samstarfi við lyfjafyrirtæki að þróa meðferð við Wuhan-kórónaveirunni. Notast verður við flokk lyfja sem hefur aukið lífslíkur fólks sýkt af ebólaveirunni.

Um er að ræða samstarf milli bandaríska heilbrigðisráðuneytisins og þarlenda lyfjafyrirtækisins Regeneron og er stefnt að því að þróa einstofna mótefni gegn veirunni, að sögn AFP-fréttastofunnar.

Einstofna mótefni eru gjarnan notuð sem hluti af ónæmismeðferð þar sem mótefnin ráðast á ákveðin prótein veirunnar og er þannig ætlað að hamla því að henni takist að sýkja mennskar frumur.

Yfir fimm hundruð manns hafa nú látist af völdum Wuhan-kórónaveirunnar sem er talin hafa átt upptök sín á markaði í kínversku borginni Wuhan í Hubeihéraði. Wuhan-kórónaveiran er ný tegund kórónaveiru og ber formlega heitið 2019-nCoV.

Notast var við lyfjameðferð sem Regeneron þróaði fyrir ebólusjúklinga í Austur-Kongó á meðan ebólufaraldur geisaði þar í fyrra og er hún sögð hafa bætt lífslíkur sjúklinga umtalsvert.

Hefur lyfjafyrirtækið einnig áður þróað meðferð gegn MERS-vírusnum, annarri gerð kórónaveiru sem greindist í Mið-Austurlöndum árið 2012.


Tengdar fréttir

Smitaðir um borð orðnir tuttugu

Yfir 560 eru nú látnir af völdum Wuhan-kórónaveirunnar og um 27 þúsund tilfelli veirunnar hafa verið staðfest, samkvæmt nýjustu tölum frá heilbrigðisyfirvöldum í Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×