Erlent

Reyndi að bana lögregluþjónum í tveimur mismunandi árásum

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásarmaðurinn á langan sakaferil að baki.
Árásarmaðurinn á langan sakaferil að baki. AP/NYPD

Maður gekk inn á lögreglustöð í New York í dag og hóf þar skothríð. Nokkrum klukkustundum áður hafði hann sömuleiðis skotið á lögregluþjóna þar sem hann sat fyrir þeim annars staðar í borginni. Tveir lögregluþjónar særðust í árásunum, einn í hvort skipti, en báðir munu ná sér að fullu. Árásarmaðurinn var handtekinn en hann gafst upp eftir að hann hafði skotið öllum skotum sínum.

Dermot Shea, yfirmaður lögreglunnar, sagði á blaðamannafundi í dag að maðurinn, sem Shea kallaði heigul, hefði reynt að ráða lögregluþjóna af dögum.

Árásarmaðurinn hefur ekki verið nafngreindur en hann á langan sakaferil að baki. Honum var sleppt úr fangelsi á reynslulausn árið 2017 eftir að hann var dæmdur fyrir morðtilraun.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, sló á svipaða strengi og Shea á blaðamannafundinum í dag og sagði að árásarmaðurinn hafi reynt að ráða lögregluþjóna af dögum.

Shea sagði að í fyrri árásinni hefði maðurinn gengið upp að tveimur lögregluþjónum þar sem þeir sátu í bíl. Hann hefði spurt þá til vegar og svo dregið upp byssu og skotið inn í bílinn. Hann særði lögregluþjóninn sem sat við stýrið á hálsi. Shea sagði það mikla lukku að hann hefði ekki hæft slagæðar í hálsi lögregluþjónsins.

Þeir svöruðu skothríðinni ekki og þess í stað keyrði hinn lögregluþjónninn rakleiðis á næsta sjúkrahús.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tísti um árásirnar í dag. Hann notaði tækifærið til að skjóta á ríkisstjóra og borgarstjóra New York, sem eru báðir Demókratar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×