Sport

Ein af stórstjörnum í Super Bowl á sunnudaginn vill keppa á Ólympíuleikunum í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tyreek Hill er mögulega fljótasti leikmaður NFL-deildarinnar.
Tyreek Hill er mögulega fljótasti leikmaður NFL-deildarinnar. Getty/Peter Aiken

Tyreek Hill og félagar í Kansas City Chiefs eiga á sunnudagskvöldið möguleika á að vinna fyrsta NFL-titil félagsins í fimmtíu ár.

Hinn eldsnöggi Tyreek Hill er einn af lykilmönnum liðsins en það eru fáir fljótari í NFL-deildnini en þessi 25 ára gamli útherji Kansas City Chiefs.  Tyreek Hill er svo fljótur að hann er kallaður „Blettatígurinn“ í NFL-heiminum.

Það er hins vegar ekki nóg fyrir Tyreek Hill að vinna bara NFL-titilinn á þessu ári því hann vill líka komast á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar.



„Ef ég verð heill eftir tímabilið og hugurinn á réttum stað þá langar mig að vinna mér sæti í Ólympíuliðinu,“ sagði Tyreek Hill í viðtali við David Smith á Pro Football Talk.

Tyreek Hill hefur gengið svo langt að skoða hvað hann þurfi að gera til þess að komast með á Ólympíuleikanna. Leikarnir fara fram í Japan 24. júlí til 9. ágúst.

Tyreek Hill segist hins vegar þurfa að létta sig ætli hann að keppa á Ólympíuleikunum.



„Vandamálið er að ég er 88 kíló í núna. Þegar ég var í menntaskóla og hljóp 100 metrana á 9,9 sekúndum þá var ég bara 79 kíló. Ég gæti því þurft að breyta öllu mataræðinu mínu en það hefur hjálpað mér að komast þangað sem ég er í dag,“ sagði Hill.

Það eru fáir varnarmenn sem eiga roð í Tyreek Hill á sprettinum og hann er líklegur kandídat í að skora snertimörk í Super Bowl leiknum á sunnudagskvöldið. Hann býr líka að því að Patrick Mahomes er að kasta á honum boltanum og tengdasonur Mosfellsbæjar á ekki í miklum vandræðum með að kasta langt.

Tyreek Hill skoraði 7 snertimörk í 12 leikjum Chiefs í deildarkeppninni en á enn eftir að skora snertimark í úrslitakeppninni.

Leikur Kansas City Chiefs og San Francisco 49ers verður í beinni á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin með upphitun klukkan 22.00. Leikurinn sjálfur hefst síðan klukkan hálf tólf.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×