Innlent

Gámarnir „krumpuðust“ utan um húsið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá höfninni á Flateyri fyrir helgi.
Frá höfninni á Flateyri fyrir helgi. Vísir/Jói K.

Ró er tekin að færast yfir Flateyri eftir mikinn eril og viðbúnað síðustu daga í kjölfar snjóflóðanna sem féllu á bæinn í byrjun síðustu viku. Eyðilegging – og svo uppbygging – blasir nú við bæjarbúum, einkum í höfninni þar sem gríðarlegt tjón hefur orðið á bátum, gámum og öðrum munum.

Þetta kom fram í máli Magnúsar Einars Magnússonar, formanns björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri, í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Magnús sagði að mjög væri tekið að hægjast á aðgerðum nú þegar tæp vika er liðin síðan snjóflóðin féllu. Síðustu björgunarsveitarmennirnir, sem komu til hjálpar á Flateyri hvaðanæva af landinu, fóru heim í gær, að sögn Magnúsar.

Magnús Einar Magnússon, formaður Sæbjargar á Flateyri.Vísir/Egill

Þá sé ljóst að mikið tjón hafi orðið í bænum, einkum við höfnina. Þegar hefur komið fram að margir bátar í höfninni hafi skemmst þegar snjóflóðið féll en í gær hófst vinna við að ná þeim upp úr sjónum. Þá eru gámar sem stóðu í kringum masturshús í höfninni afar illa farnir eftir flóðið.

„Við vissum af gámum sem voru með kajökum og sjóstangveiðibúnaði og við reyndum að vinna okkur að þeim í gær en þeir eru alveg krumpaðir eins og snjóbolti. Þannig að það er gífurlegt tjón þar líka,“ sagði Magnús.

„Þeir krumpuðust utan um húsið. […] Annar gámurinn er í „L“ utan um húsið og rifinn upp, stálið rifnaði, það eru svaka kraftar í þessu.“

Óvissustigi vegna snjóflóðanna var aflýst í gærkvöldi og kvað Magnús ástandið stöðugt eins og er. Þá væri nokkuð óhugnanlegt að vita af því að varnargarðurinn fyrir ofan bæinn hafi ekki haldið að öllu leyti.

„En það hefur í gegnum tíðina fallið flóð á þá [varnargarðana] og þess vegna lifið maður í þeirri trú að treysta þeim hundrað prósent. Ég bý hérna sjálfur alveg við þá og ég hafði hundrað prósent traust á þeim,“ sagði Magnús.

„Það er auðvitað mesta sjokkið. Í mínu tilfelli er það bara hræðslan við að þetta gerist aftur svolítið ofarlega í huga manns. Af því að traustið var svo mikið og alveg sama hvað verður gert, erum við enn þá tilraunadýr eða er þetta nóg núna?“

Viðtalið við Magnús má hlusta á í heild  í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×