Viðskipti innlent

Skúli og aðrir stjórn­endur WOW krafðir um milljarðaskaða­bætur

Eiður Þór Árnason skrifar
WOW air varð gjaldþrota þann 28. mars 2018.
WOW air varð gjaldþrota þann 28. mars 2018. Vísir/Vilhelm

Hópur skuldabréfaeiganda krefst þess að stjórn og forstjóri hins fallna WOW air bæti þeim það tjón sem hópurinn varð fyrir við gjaldþrot félagsins í mars á síðasta ári.

Morgunblaðið greinir frá þessu og kemur þar fram að í kröfubréfinu sé þess krafist að stjórnendur gangi til samninga um greiðslu bóta en hópurinn áskilur sér annars þann rétt að fara með málið fyrir dómstóla. Kröfurnar eru sagðar nema milljörðum króna.

Sjá einnig: Losun frá flugi stórminnkaði eftir fall flugfélaganna

Kröfubréfið var sent í lok síðasta árs en við gjaldþrot WOW air urðu umrædd skuldabréf með öllu verðlaus. Grundvöllur kröfunnar er sagður vera sá að skuldabréfaeigendurnir telji að upplýsingagjöf stjórnenda í tengslum við skuldabréfaútboð árið 2018 hafi verið villandi og gefið ranga mynd af raunverulegri stöðu félagsins.

Stuttu eftir gjaldþrot WOW var haft eftir lögmanni skuldabréfaeiganda að spurningar hafi vaknað hjá kröfuhöfum um það hvernig félagið gat farið í þrot innan við sex mánaðum eftir að skuldabréfaútboði félagsins lauk.

Sjá einnig: Telur eðli­legt að skulda­bréfa­út­boðið verði skoðað

Heimildir Morgunblaðsins herma að kröfu skuldabréfaeigendanna sé beint að Skúla Mogensen, forstjóra, stjórnarmanni og eiganda félagsins, Liv Bergþórsdóttur, stjórnarformanni við fall þess, Helgu Hlín Hákonardóttur lögmanni og Davíð Mássyni, flugrekanda og fjárfesti.

Stjórnendum WOW gekk erfiðlega að safna fjármagni í skuldabréfaútboði sem félagið réðst í um mitt ár 2018 en tilkynnt var um það í september sama ár að tekist hefði að loka því. Í því söfnuðust alls rétt rúmar fimmtíu milljónir evra en þar af voru 25,8 milljónir frá fyrirtækjum og einstaklingum sem tengdust félaginu nánum böndum.

Stjórn WOW var með stjórnendatryggingu sem er ætlað að mæta mögulegum kröfum vegna tjóns sem hún kynni að valda með störfum sínum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er umrædd tryggingafjárhæð mun lægri en fjárhæð skuldabréfaútboðsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×