Erlent

34 banda­rískir her­menn hlutu heila­áverka eftir árás Írana

Eiður Þór Árnason skrifar
Hermenn skoða vettvang eldflaugaárásarinnar sem var gerð í hefndarskyni fyrir dráp Bandaríkjamanna á háttsetta íranska hershöfðingjanum Qasem Soleimani.
Hermenn skoða vettvang eldflaugaárásarinnar sem var gerð í hefndarskyni fyrir dráp Bandaríkjamanna á háttsetta íranska hershöfðingjanum Qasem Soleimani. Vísir/AP

Bandaríska varnarmálaráðuneytið greindi frá því í gær að 34 bandarískir hermenn hafi hlotið heilaáverka eftir árás Írana á íraska herstöð fyrr í mánuðinum.

Umrædd árás var gerð í hefndarskyni fyrir dráp Bandaríkjamanna á háttsetta íranska hershöfðingjanum Qasem Soleimani.

Helmingur hermannanna hefur snúið aftur til starfa en fregnirnar ganga í berhögg við fyrri yfirlýsingar Donald Trump Bandaríkjaforseta þess efnis að engum Bandaríkjamönnum hafi orðið meint af árásinni.

Forsvarsmenn bandaríska hersins segja að ekki hafi strax borist tilkynningar um einkenni heilahristings eða heilaáverka og að sum tilfellin hafi komið í ljós einhverjum dögum eftir árásina.

Sjá einnig: Íranir skjóta eldflaugum á herstöðvar Bandaríkjanna í Írak

Átta hinna særðu komu til Bandaríkjanna á föstudag frá Þýskalandi en alls sautján voru fluttir þangað í kjölfar árásarinnar á Ain al-Asad flugherstöðina þann 8. janúar síðastliðinn. Níu þeirra dvelja enn í Þýskalandi á Landstuhl Regional Medical Center, stærsta hersjúkrahúsi Bandaríkjamanna utan landsteinanna.

Jonathan Hoffman, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, greindi fjölmiðlum frá því að hinir átta heimkomnu muni hljóta frekari aðhlynningu á heilbrigðisstofnunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×