Handbolti

Spánverjar Evrópumeistarar 2020

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Spánverjar eru Evrópumeistarar 2020.
Spánverjar eru Evrópumeistarar 2020. Vísir/Getty

Spánverjar eru Evrópumeistarar í handbolta eftir tveggja marka sigur á Króötum í frábærum úrslitaleik. Lokatölur í Tele2 höllinni í Stokkhólmi 22-20 Spánverjum í vil. Annað skiptið í röð sem Spánverjar landa Evrópumeistaratitlinum.

Króatar, sem unnu Norðmenn á eftirminnilegan hátt í tvíframlengdum undanúrslitaleik, byrjuðu leikinn betur og komust í 2-0 snemma leiks. Annars var leikurinn í járnum nær allt til enda en eftir tíu mínútna leik var staðan jöfn, 5-5.

Varnarleikur beggja liða var frábær í dag en ljóst að sóknarleikurinn var orðinn pínu stífur og stirður eftir álagið síðustu daga. 

Króatar komust svo aftur tveimur mörkum yfir, 8-6, eftir að staðan hafði verið jöfn 6-6. Domagoj Duvnjak þá með fjögur af átta mörkum Króata. Eftir það fór allt í baklás hjá Króötum á meðan Spánverjar spýttu í lófana en þeir skoruðu næstu fjögur mörk leiksins. 

Þegar skammt var til hálfleiks leiddu Spánverjar með einu marki, staðan þá 11-10. Króatar náðu hins vegar að jafna metin þegar fyrri hálfleikur var í þann mund að renna út en samt sem áður tókst Spánverjum að skora þökk sé góðu skoti Raúl Entrerríos alveg í blálokin.

Staðan því 12-11 er liðin gengu til búningsherbergja. 

Spánverjar gátu þakkað Pérez De Vargas í markinu en hann varði sex af þeim átta skotum sem hann fékk á sig í fyrri hálfleik.

Spánverjar komust tveimur mörkum yfir snemma í síðari hálfleik. Tvö mörk uðru fjögur skömmu síðar en í tvígang var enginn í marki Króata. Aleix Gomez Abello nýtti sér það en hann skoraði þrjú mörk í röð fyrir Spánverja sem komust mest fjórum mörkum yfir, staðan þá 16-12.

Króatar eru hins vegar ekki þekktir fyrir að leggja árar í bát og tókst þeim að minnka muninn jafnt og þétt þangað til staðan var allt í einu orðin 18-18 og skammt til leiksloka. Á þeim tímapunkti stefndi allt í að Króatar væru á leið í framlengingu annan leikinn í röð.

Þeir komust svo yfir í stöðunni 19-18 og höfðu þá skorað þrjú mörk í röð. Raunar var það þannig að eftir að Króatar jöfnuðu í 18-18 var ekki skorað í fímm mínútur í leiknum. Spennustigið greinilega mjög hátt.

Spánverjar skoruðu í kjölfarið tvö mörk og komust 20-19 yfir en Króatar voru fljótir að hugsa og tóku snögga miðju þar sem enginn var í marki Spánar og skoraði Ilija Brozović með skoti frá miðju. Reyndist það síðasta mark Króata í leiknum en þeir fóru illa að ráði sínu undir lok leiks og fór það svo að Spánverjar skoruðu síðustu tvö mörk leiksins og tryggðu sér þar með Evrópumeistaratitilinn, annað skiptið í röð.

Lokatölur í Tele2 höllinni í Stokkhólmi 22-20 Spánverjum í vil. Spánverjar verðugir meistarar en þeir töpuðu ekki leik allt mótið. Eini leikurinn sem þeir unnu ekki var jafntefli við Króata í milliriðli.

Er þetta í 3. sinn sem Króatar tapa úrslitaleik Evrópumótsins í handbolta.


Tengdar fréttir

Norðmenn brjálaðir | Átti sigurmark Króatíu að standa?

Zeljo Musa skoraði sigurmark Króatíu í tvíframlengdum undanúrslitaleik liðsins gegn Noregi í gær þegar aðeins fimm sekúndur voru eftir á klukkunni. Norðmenn eru brjálaðir þar sem þeir segja að markið hafi verið ólöglegt. Leiknum lauk með eins marks sigri Króatíu, 29-28.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×