Erlent

Minnst átta fórust í elds­voða í smá­báta­höfn í Ala­bama

Gunnar Reynir Valþórsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Höfnin var nær alelda, líkt og sést í þessu skjáskoti úr myndbandi af vettvangi.
Höfnin var nær alelda, líkt og sést í þessu skjáskoti úr myndbandi af vettvangi. Vísir/AP

Að minnsta kosti átta létu lífið þegar eldsvoði kom upp í smábátahöfn á Tennessee-ánni í Alabama í Bandaríkjunum. Þrjátíu og fimm skemmtibátar urðu eldinum að bráð. Eldurinn virðist hafa breiðst út með ógnarhraða á milli bátanna en fólkið um borð var flest í fastasvefni þegar atkvikið átti sér stað.

Einskonar þak var yfir bátalæginu, sem staðsett er í smábænum Scottsboro. Það varð alelda á örskotsstundu og hrundi svo yfir bátana, sem sumir hverjir sukku.

Sjö einstaklingum sem voru á bryggjunni þegar eldsins varð vart tókst að kasta sér í ána og voru þeir fluttir á spítala. Ekki er ljóst með upptök eldsins og verið er að kanna hvort fleiri lík finnist í brakinu.

Haft er eftir Gene Necklaus, slökkviliðsstjóra í Scottsboro, í frétt BBC að eldsvoðinn sé mikill harmleikur. Þá er gert ráð fyrir að björgunaraðgerðir í höfninni taki allt að fjóra daga.

„Þetta er eitt af því hræðilegasta sem ég hef séð. Ég held, eftir því sem við fáum að vita meira, að harmleikurinn ágerist.“

Vitni lýsir því jafnframt í samtali við AP-fréttastofuna að fólk hafi margt reynt að stökkva um borð í bát við annan enda hafnarinnar. Sá bátur hafi hins vegar fljótt orðið alelda og fólkið því neyðst til þess að henda sér út í sjó.

Nokkrir voru fluttir slasaðir á sjúkrahús, ýmist kaldir úr sjónum eða vegna brunasára, en þeir hafa allir verið útskrifaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×