Viðskipti erlent

Boeing glímir við fálkavandamál

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Förufálki á flugi.
Förufálki á flugi. Vísir/Getty

Flugbann og framleiðslustöðvun á Boeing 737 MAX flugvélum bandaríska flugfélagaframleiðandans hefur ekki bara bakað vandræði fyrir flugfélagið og starfsmenn þess. Nú er útlit fyrir að fálkapar verði heimilislaust.

Förufálkapar hefur undanfarin ár gert sig heimankomið í 737 MAX verksmiðju Boeing í grennd við Seattle í Bandaríkjunum. Starfsmenn og yfirmenn hafa ekki haft teljandi áhyggjur af fálkunum, þangað til nú.

Þannig greinir Seattle Times frá því að vegna þess að framleiðsla á 737-MAX vélunum hafi verið stöðvuð sé gert ráð fyrir að dyr verksmiðjunnar verða meira og minna lokaðar, og því komast fálkarnir ekki út til að veiða og viðra sig.

Sem fyrr segir hafa fálkarnir ekki valdið miklum vandræðum. Ungar hafa átt það til að detta úr hreiðri þeirra niður á verksmiðjugólfið auk þess sem að Boeing hefur þurft að fá fyrirtæki í vinnu til að hreinsa upp eftir fálkana.

En nú þegar verksmiðjunni hefur verið tímabundið lokað telja yfirmenn hjá Boeing að nú sé besta tækifærið til þess að losna við fálkaparið. Þá er einnig óttast um að fálkarnir muni svelta til dauða komist þeir ekki út til að veiða.

Í frétt Seattle Times segir hins vegar að alls óvíst sé hvort það takist að fjarlægja fálkana og koma þeim á nýjan stað. Í fyrsta lagi geta þeir flogið á gríðarlegum hraða og í öðru lagi er haft eftir fuglasérfræðingi að fálkarnir verði mjög hændir að þeim stað þar sem þeir hafa gert sig heimankomna, og því líklegt að þeir reyni að snúa aftur.


Tengdar fréttir

Þrítugar 757-þotur þurfa að endast lengur hjá Icelandair

Icelandair gerir ekki ráð fyrir að MAX-þoturnar nýtist félaginu næsta sumar og neyðist því til að halda elstu Boeing 757-þotum sínum enn lengur í rekstri en meðalaldur þeirra hjá félaginu er orðinn 24 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×