Handbolti

Sportpakkinn: Tapið fyrir Ungverjum sveið sárast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ungverska línutröllið Bence Bánhidi reyndist Íslendingum afar erfiður á EM.
Ungverska línutröllið Bence Bánhidi reyndist Íslendingum afar erfiður á EM. vísir/epa

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, segir að tapið gegn Ungverjalandi á EM 2020 svíði sárt. Ísland tapaði, 18-24, og fór þar af leiðandi án stiga í milliriðli. Tapið hafði líka mikil áhrif á möguleika Íslands á að komast í undankeppni Ólympíuleikanna.

„Það sárasta er leikurinn á móti Ungverjum. Við byrjuðum afskaplega vel og vorum 12-7 yfir þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik. Þetta leit mjög vel út, vörnin var frábær og við keyrðum hraðaupphlaup á þá,“ sagði Guðmundur í samtali við Arnar Björnsson í Sportpakkanum.

„Þeir skoruðu svo tvö mörk á stuttum tíma. Ef þú getur farið með fimm marka forystu inn í hálfleik gerirðu það. Reynslumestu liðin gera það.“

Staðan í hálfleik var 12-9, Íslandi í vil, en í seinni hálfleik var Ungverjaland sterkari og vann á endanum sex marka sigur, 18-24. Íslendingar skoruðu aðeins sex mörk í seinni hálfleik.

„Þrátt fyrir að vera ekki að spila neitt sérstaklega vel vorum við inni í leiknum þegar tólf mínútur voru eftir. Okkur tókst afar illa upp í sókninni, það er að segja við misnotuðum alltof mikið af færum. Markvörður Ungverja [Roland Mikler] varði dauðafæri frá okkur,“ sagði Guðmundur.

„Það kom upp ákveðin örvænting í liðinu og pirringur. Tilfinningin var að við værum að afhenda þeim þetta. Þessi leikur var það versta við þessa keppni. Hann sat í mér, og örugglega leikmönnunum, og kostaði okkur á endanum mjög mikið.“

Klippa: Tapið gegn Ungverjum það versta við EM

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×