Erlent

Þvertaka enn fyrir að flugvélin hafi orðið fyrir eldflaug

Samúel Karl Ólason skrifar
Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur staðfest að alls sautján sænskir ríkisborgarar hafi látið lífið í flugslysinu sem varð í Íran fyrr í vikunni.
Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur staðfest að alls sautján sænskir ríkisborgarar hafi látið lífið í flugslysinu sem varð í Íran fyrr í vikunni. AP/Ebrahim Noroozi

Yfirvöld Íran þvertaka enn fyrir að farþegaþota frá Úkraínu hafi verið skotin niður yfir Íran í vikunni. 176 létu lífið þegar flugvélin féll til jarðar skömmu eftir flugtak í Teheran á miðvikudaginn. Það var skömmu eftir að Íranar skutu fjölda eldflauga á herstöðvar í Írak, þar sem bandarískir hermenn halda til. Sterkar vísbendingar eru fyrir því að flugvélin hafi verið skotin niður og má þar helst nefna myndband sem sýnir mögulega þegar flugvélin verður fyrir eldflauginni.

Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur staðfest að alls sautján sænskir ríkisborgarar hafi látið lífið í flugslysinu sem varð í Íran fyrr í vikunni.

Áður hafði verið greint frá því að tíu Svíar hefðu látið lífið en einhver óvissa var með þjóðerni einhverra farþega vélarinnar þar sem þeir voru með tvöfalt ríkisfang.

Alls fórust 176 í slysinu, farþegar og áhafnarmeðlimir, og voru frá Íran, Kanada, Úkraínu, Afganistan, Bretlandi og Þýskalandi auk Svíþjóðar.

Leiðtogar vestrænna ríkja segja útlit fyrir að flugvélin hafi verið skotin niður fyrir slysni.

Ali Abedzadeh, yfirmaður flugmálayfirvalda Íran, segist þó augljóst í augum þeirra og fullvíst að flugvélin hafi ekki orðið fyrir eldflaug.

„Ef þeir eru í alvörunni vissir í sinni sök, ættu þeir að stíga fram og sýna heiminum niðurstöður sínar,“ sagði hann á blaðamannafundi í morgun.

Hassan Rezaeifar, sem er yfir rannsókninni, segir að það gæti tekið allt að tvö ár að komast til botns í málinu. Þá gæti reynst erfitt að ná gögnum úr svörtu kössum flugvélarinnar þar sem þeir hafi orðið fyrir skemmdum.

Úkraínumenn fengu upplýsingar frá Bandaríkjunum

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, sagði frá því á Twitter í dag að hann hefði rætt við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og fengið upplýsingar frá honum. Talsmaður forsetans sagði þessar upplýsingar vera mjög mikilvægar en sérfræðingar ættu eftir að fara yfir þau.

New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum innan stjórnvalda Bandaríkjanna að leyniþjónustur ríkisins telji tveimur eldflaugum hafa verið skotið að flugvélinni.

Hér að neðan má sjá myndband sem skaut upp kollinum í gær og sýnir líklega augnablikið þegar flugvélin var skotin niður.

Sá sem tók myndbandið sagðist hafa byrjað að taka upp þegar hann heyrði hljóð sem hann lýsti sem byssuskoti. Það er í samræmi við heimildir NYT um að tveimur eldflaugum hafi verið skotið að flugvélinni.

Sérfræðingar Bellingcat, sem hafa rannsakað örlög flugvélarinnar sem skotin var niður af aðskilnaðarsinnum yfir Úkraínu um árabil, hafa fundið hvaðan þetta myndband var tekið með nákvæmum hætti.

Samkvæmt niðurstöðum þeirra var myndbandið tekið upp skammt vestur af flugvellinum sem flugvélin tók á loft frá Á vef Bellingcat má sjá nákvæma útskýringu á því hvernig staðsetningin fannst.

Blaðamenn New York Times komust að sömu niðurstöðu.

Aðrar vísbendingar hafa einnig litið dagsins ljós. Talið er að flugvélin hafi verið skotin niður með eldflaugum sem kallast Tor M-1. Myndir hafa verið birtar á samfélagsmiðlum sem eiga að sýna nef slíkrar eldflaugar skammt frá staðnum þar sem flugvélin brotlenti. Það hefur þó ekki verið staðfest að myndirnar séu raunverulegar.


Tengdar fréttir

Íranir segjast ekki ætla að af­henda flug­ritann

Íranir segjast ekki ætla að afhenda flugrita úkraínsku farþegaþotunnar sem fórst í Teheran með 176 innanborðs í gær til bandarískra yfirvalda eða flugvélaframleiðandans Boeing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×