Erlent

Metfjöldi fíla drepnir í Srí Lanka

Samúel Karl Ólason skrifar
Það er ólöglegt að drepa fíla í Srí Lanka en bændur þar telja þá vera mikla plágu og fílarnir eru farnir að sækja í byggðir manna.
Það er ólöglegt að drepa fíla í Srí Lanka en bændur þar telja þá vera mikla plágu og fílarnir eru farnir að sækja í byggðir manna. EPA/HARISH TYAGI

Minnst 361 fíll drapst í Srí Lanka í fyrra og hefur sú tala aldrei verið hærri. Flestir þeirra voru drepnir af mönnum en talið er að einungis 7.500 villtir fílar séu í landinu. Það er ólöglegt að drepa fíla í Srí Lanka en bændur þar telja þá vera mikla plágu og fílarnir eru farnir að sækja í byggðir manna. Hundrað menn voru drepnir af fílum á árinu.

Samkvæmt umhverfisverndarsamtökunum Movement for Land and Agricultural Reform er ýmsum brögðum beitt til að drepa fíla. Meðal annars er notast við rafmagnsgirðingar, eitur og sprengjur, sem dulbúnar eru sem matur. Margir fílar verða einnig fyrir lestum.

Í frétt BBC er vitnað í atvik í september þar sem sjö fílar fundust dauðir á verndarsvæði og töldu embættismenn að íbúar á svæðinu hefðu eitrað fyrir fílunum eftir að þeir eyðilögðu uppskeru þeirra.

Sajeewa Chamikara, frá MLAR, segir samtökin telja að 85 prósent þeirra fíla sem hafi drepist í fyrra hafi verið drepnir af mönnum.

Bygging nýrra þorpa og bóndabýla hefur leitt til þess að vistarsvæði fíla hefur skroppið mikið saman og aðgangur þeirra að mat og vatni hefur verið gerður erfiðari. Yfirvöld hafa heitið því að bregðast við með byggingu girðinga á milli byggða manna og vistarsvæða fíla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×