Sport

Conor McGregor vill annan boxbardaga á móti Floyd Mayweather

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Conor McGregor og Floyd Mayweather fyrir bardaga þeirra í ágúst 2017.
Conor McGregor og Floyd Mayweather fyrir bardaga þeirra í ágúst 2017. Getty/Jeff Bottari

Írski bardagakappinn Conor McGregor er á leiðinni aftur inn í UFC búrið um næstu helgi en hann er þó strax farinn að tala um næsta boxbardaga í viðtölum við fjölmiðla.

ESPN segir frá því að Conor McGregor vilji nú annan boxbardaga á móti Floyd Mayweather en Írinn talaði um þessa ósk sín í viðtali í MMA þætti  Ariel Helwani.



Fyrsta val Conors væri að berjast aftur við Floyd Mayweather en McGregor væri líka til í boxbardaga á móti Manny Pacquiao. Írinn er líka sannfærður um að slíkur bardagi verði að veruleika.

„Ég vil fá annan bardaga við Floyd. Hann er að daðra við að berjast aftur. Hann getur vissulega valið einhvern annan en það verður ekki það sama,“ sagði Conor McGregor í þættinum.

Floyd Mayweather kláraði bardagann á móti Conor McGregor með tæknilegu rothöggi í tíundu lotu en sá fór fram 26. ágúst 2017. Tekjur af bardaganum voru yfir 600 milljónir dollara en 4,3 milljónir borguðu sérstaklega fyrir að horfa á bardagann.

600 milljónir Bandaríkjadala eru meira en 74,2 milljarðar í íslenskum krónum.

Dana White, forseti UFC, hefur handasalan samning við Conor McGregor og er kominn á fullt að reyna að setja á slíkan bardaga þótt ekki sé enn vitað með hvaða hætti Conor og væntanlegur andstæðingur hans muni berjast.



„Þetta var frábær reynsla fyrir mig á sínu tíma og ég hlakka til að gera þetta aftur. Þetta mun líka gerast aftur,“ sagði Conor McGregor sem græddi náttúrulega mikinn pening á bardaganum við Floyd Mayweather.

Sagan segir að Floyd Mayweather hafi fengið samtals 275 milljónir dollara en Conor 85 milljónir dollara. Þetta er upphæðir upp á 34 milljarða og 10,5 milljarða íslenskra króna.

Conor McGregor mætir Donald Cerrone í UFC 246 um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×