Innlent

Fljúga til vonar og vara með björgunarsveitarfólk vestur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mikið tjón var í smábátahöfninni á Flateyri í gærkvöldi þegar fyrra snjóflóðið féll.
Mikið tjón var í smábátahöfninni á Flateyri í gærkvöldi þegar fyrra snjóflóðið féll. Önundur Hafsteinn Pálsson

Ákveðið hefur verið að flytja fulla þyrlu af björgunarsveitarfólki frá höfuðborgarsvæðinu til Vestfjarða í kvöld. Þetta staðfestir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörg. Reiknað er með því að þyrla Landhelgisgæslunnar fari í loftið á sjöunda tímanum en hún er á leiðinni til höfuðborgarinnar úr sjúkraflugi á Vestfirði.

Davíð segir ástæðu flutninganna einfaldlega þá að viðbragðsaðilar vilji hafa vaðið fyrir neðan sig.

„Dagurinn í dag fer augljóslega í að ná áttum, meta ástandið á svæðinu og svo er gert ráð fyrir að til verði einhver verkefni,“ segir Davíð. Þau felist í því að bjarga verðmætum og hlúa að fólki. Þá þurfi að styðja við samfélagið fyrir vestan.

Með því að flytja fólkið vestur sé aukinn stuðningur á svæðinu næstu daga. Það sé betra að hafa viðbragðið meira en minna. Þá sé hægt að draga úr ef ekki finnist not fyrir aukafólkið úr höfuðborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×