Íslenski boltinn

Atli eftir fund með Arnari: Heyrði í um­boðs­manninum og sagði að þetta væri liðið sem ég vildi fara í

Anton Ingi Leifsson skrifar

Hinn átján ára gamli Atli Barkarson skrifaði í dag undir samning við bikarmeistara Víkings.



Atli fór ungur að árum í atvinnumennsku og hefur spilað með unglingaliði Norwich og C-deildarliði Frederikstad í Noregi frá því að hann fór.

Nú er hann kominn heim og hefur samið við Víkinga en Arnar Björnsson ræddi við Atla í dag.

„Auðvitað langar manni alltaf að vera lengur úti en mér fannst rétt skref að fara heim núna,“ sagði Atli eftir undirskriftina.

„Mér finnst verkefnið sem Arnar og Víkingur er með frábært. Þjálfarateymið og allt sem er í kringum Víking lítur vel út og ég sá möguleika á því að spila.“

„Pepsi Max-deildin er sterk og ég held að það sé fínt skref að fara aðeins heim og þróa minn leik áður en maður heldur áfram úti.“

Atli var í unglingaliðum Norwich og hann segir að þar hafi hann öðlast góða reynslu.

„Ég fékk tækifæri hjá Norwich og spilaði þar með U18-ára liðinu og U23-ára liðinu sem er varaliðið. Ég æfði með þeim liðum og fékk þar góða reynslu og þjálfun.“

Víkingur var ekki eina liðið sem vildi næla í þennan efnilega leikmann.

„Það voru fleiri lið á Íslandi sem höfðu áhuga. Þetta var erfitt val en þegar ég heyrði frá Víking og fór á fund með Arnari þá vildi ég fara hingað um leið.“

„Ég heyrði í umboðsmanninum og sagði að þetta væri liðið sem ég vildi fara í.“

Hann segir að hugurinn hafi leitað heim eftir veruna í C-deildinni í Noregi.

„Ég hefði getið verið áfram í Noregi en þeir fóru ekki upp um deild svo ég ákvað að vera ekki áfram hér. Mér fannst deildin ekki nógu spennandi.“

„Ég vildi koma heim og fá að spila alvöru fótbolta áður en ég færi aftur út“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×