Erlent

Önnur loft­á­rás gerð innan við sólar­hring eftir að So­leimani var drepinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Myndin var birt af írönskum stjórnvöldum og er sögð sýna eftirköst drónaárásar Bandaríkjamanna sem drap íranska hershöfðingjann Qasem Soleimani.
Myndin var birt af írönskum stjórnvöldum og er sögð sýna eftirköst drónaárásar Bandaríkjamanna sem drap íranska hershöfðingjann Qasem Soleimani. Vísir/AP

Önnur loftárás var gerð í Írak í gær, innan við sólarhring eftir að hinn háttsetti íranski hershöfðingi Qasem Soleimani lést í loftárás Bandaríkjamanna í Bagdad. Fimm eru sagðir hafa látist í árásinni.

Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra á svæðinu neita því að þeir standi á bak við árásina. AP fréttastofan hefur eftir írönskum embættismanni að árásin hafi beinst að tveimur bifreiðum norður af Baghdad. Um borð voru meðlimir hersveitar sem nýtur stuðnings Íransstjórnar. Ekki liggja fyrir nánari upplýsingar um það hverjir létust í árásinni.

Sjá einnig: Óttast hættulegri heim eftir morðið á Soleimani

Einnig hefur íranska ríkissjónvarpið og fjölmiðlaarmur sveitar vopnaðra sjálfboðaliða, sem kallast PopularMobilisationForces, greint frá árásinni. Forsvarsmenn írösku sveitarinnar segja að engir háttsettir leiðtogar hafi fallið í árásinni. Þeir fullyrða að bifreiðarnar hafi einungis flutt heilbrigðisstarfsfólk en ekki leiðtoga líkt og fjölmiðlar hefðu greint frá.

Morð Bandaríkjamanna á Soleimani hefur valdið miklum óróleika á svæðinu. Hershöfðinginn var afar valdamikill og naut trausts bæði æðstaklerksins og almennings. Í Íran var litið á hann sem þjóðhetju en Bandaríkjamenn skilgreindu Quds-hersveitir hans sem hryðjuverkahóp. Stjórnvöld í Íran lofa því að hefna fyrir morðið og allt er á suðupunkti vegna átaka ríkjanna tveggja.

Soleimani var á leið frá flugvellinum í íröksku höfuðborginni Bagdad þegar dróni Bandaríkjahers skaut á bílalest hans og er hann talinn hafa látist samstundis.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi í gær að árásin hafi gerð til þess að „stöðva stríð.“

Á svipuðum tíma greindi bandaríska dagblaðið TheNew York Times frá því í gær að bandarísk stjórnvöld væru byrjuð að flytja fjögur þúsund hermenn til Mið-Austurlanda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×