Viðskipti innlent

Far­þegum Icelandair til Ís­lands fjölgaði um fjórðung

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. vísir/vilhelm

Farþegum Icelandair sem félagið flutti til Íslands fjölgaði um 25 prósent á árinu 2019 sé miðað við fyrra ár, 2018, eða um 1,9 milljónir farþega.

Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair þar sem segir að þessar tölur séu í samræmi við áherslu Icelandair á ferðamannamarkaðinn á síðasta ári:

„Í desember fjölgaði farþegum Icelandair til Íslands um 11% og voru þeir rúmlega 106 þúsund talsins. Farþegum frá Íslandi fjölgaði einnig í desember, eða um 8%, og fjölgaði um 18% á árinu í heild.

Tengifarþegum fækkaði um 9% í desember en fækkun þeirra var 9% á árinu í heild. Sætanýting í millilandastarfsemi félagins var 80.7% í desember samanborið við 79.6% á sama tíma 2018.

Icelandair hefur aldrei flutt jafnmarga farþega í millilandaflugi og á árinu 2019 eða alls um 4,4 milljónir farþega, sem er 6% aukning á milli ára.

Þá batnaði komustundvísi umtalsvert og var 80.0% í desember samanborið við 73.7% í desember 2018. Heildarstundvísi á árinu 2019 jókst um tæp 12 prósentustig á milli ára,“ segir í tilkynningu Icelandair.

Þar er jafnframt haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra fyrirtækisins, að félagið muni halda áfram á sömu braut á þessu ári með uppstillingu leiðakerfisins og áherslum í sölu- og markaðsstarfi.

„Við gerum ráð fyrir 25-30% aukningu á farþegum til landsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Sveigjanleiki í leiðakerfi félagsins gerir okkur kleift að bregðast hratt við breytingum í umhverfinu og mæta eftirspurn,“ segir Bogi Nils.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×