Dembele skaut Lyon áfram í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Lyon fagnar öðru marki sínu í kvöld.
Leikmenn Lyon fagnar öðru marki sínu í kvöld. EPA-EFE/Franck Fife

Manchester City og Lyon mættust í síðasta leik 8-liða úrslita Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Allir leikirnir í 8-liða úrslitum hafa farið fram í Lisbon í Portúgal og þessi var engin undantekning.

Man City var talið mun líklegra en það telur bara ekkert þegar á hólminn er komið. Lyon gerði sér nefnilega lítið fyrir og vann 3-1 sigur í kvöld. Lyon þar með komið í undanúrslit þar sem þeir mæta Bayern Munich.

Það kom töluvert á óvart að Pep Guardiola stillti liði sínu upp í þriggja manna vörn í kvöld. Var Pep eflaust að reyna spegla leikkerfi Lyon en þeir spila 3-5-2 leikkerfi sjálfir. 

Maxwell Cornet skoraði eina mark fyrir hálfleiksins um hann miðjan eftir að boltinn datt fyrir Maxwell Cornet eftir að Kyle Walker hafði setið aðeins eftir og spilað sóknarmann Lyon réttstæðan. 

Fílbeinstrendingurinn Cornet greip gæsina og skoraði með frábæru vinstri fótar skoti og staðan orðin 1-0 fyrir Lyon. Þó svo að City hafi fengið ágætis færi í hálfleiknum þá komust þeir aldrei framhjá Anthony Lopes sem stóð vaktina í marki „gestanna“ en Lyon var titlað gestalið í dag og því í varabúningum sínum.

Lyon því með 1-0 forystu er Ντάνι Μακέλι - dómari leiksins - flautaði til loka fyrri hálfleiks.

Riyad Mahrez kom inn eftir 55 mínútna leik fyrir Fernandinho sem var á gulu spjaldi. Fór City í hefðbundnara 4-3-3 leikkerfi við þá skiptingu. Belginn Kevin De Bruyne jafnaði svo metin á 69. mínútu leiksins og virtist sem taktísk breyting Pep ætlaði að ganga upp.

Rudi Garcia, þjálfari Lyon, átti þó einnig ás upp í erminni en þegar fimmtán mínútur voru eftir tók hann Memphis Depay af velli og setti Moussa Dembele inn á. Dembele hafði ekki skorað í Meistaradeildinni á þessari leiktíð en það breyttist svo sannarlega í kvöld.

Aðeins fjórum mínútum eftir að hann kom inn á þá slapp Dembele í gegn. Skot hans af löngu færi fór hálfpartinn í gegnum Ederson í marki City og þaðan í netið. Dómari leiksins beið eftir að myndbandsdómararnir höfðu tekið ákvörðun og tilkynnti svo að markið stæði. 

Lyon er komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.EPA-EFE/Miguel A. Lopes

Skömmu eftir að David Silva kom inn af varamannabekk City í því sem var hans síðasti leikur fyrir félagið þá fékk Raheem Sterling gullið tækifæri til að jafna metin. Hann skaut þá yfir af stuttu færi eftir frábært spil City þegar það virtist auðveldrara að hitta markið.

Sterling var enn að klóra sér í höfðinu eftir þetta ótrúlega klúður þegar Dembele gerði út um leikinn. Ederson tókst þá ekki að halda annars slöku skoti og datt boltinn út í teiginn þar sem Dembele var fljótastur að hugsa.

Staðan orðin 3-1 og reyndust það lokatölur á tómum Estadio Jose Alvalade-leikvanginum. Skelfilegt gengi City í Meistaradeildinni heldur þar með áfram sem og leit Pep að Meistaradeildartitli án Lionel Messi.

Lyon er þar með komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í annað skipti í sögunni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira