Erlent

Fíla­stofninn í Kenía tvö­faldast á þremur ára­tugum

Atli Ísleifsson skrifar
Fílar á gangi við Kilimanjaro.
Fílar á gangi við Kilimanjaro. Getty

Fjöldi fíla í Kenía hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 1989 og til dagsins í dag. Frá þessu var greint í gær þegar alþjóður dagur fíla var haldinn hátíðlegur.

Najib Balala, ferðamálaráðherra Kenía, segir að fjölgunina megi rekja til þess að yfirvöld þar í landi hafi náð að stemma stigu við veiðiþjófnað. Greindi hann frá þessu í heimsókn sinni til Amboseli-þjóðgarðsins í gærmorgun.

Í frétt DW segir að fjöldi þeirra fíla sem hafi orðið veiðiþjófum að bráð það sem af er ári sé einungis sjö, samanborið við 34 á síðasta ári og áttatíu árið 2018.

Ekki er það sama upp á teningnum í öðrum ríkjum Afríku þar sem veiðiþjófar herja víða sem aldrei fyrr. Áætlað er að alls hafi verið um 1,3 milljónir fíla í álfunni á áttunda áratugnum, en í dag er áætlað að fjöldinn sé um 500 þúsund.

Uhuru Kenyatta, forseti Kenía, ákvað árið 2016 að senda veiðiþjófum skilaboð með því að kveikja í miklum fjölda fílabeina, en beinin eru verðmæt og gjarnan seld á svörtum markaði. Þá var einnig ákveðið að þyngja refsingar við ólöglegum fíladrápum og viðskipti með fílaafurðir. Vill Keníastjórn meina að aðgerðirnar hafi haft sitt að segja þegar kemur að vernd stofnsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×