Viðskipti innlent

Hafa lokið samningum við Boeing og kröfuhafa

Samúel Karl Ólason skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Arnar

Forsvarsmenn Icelandair Group hafa lokið viðræðum við kröfuhafa félagsins og náð endanlegu samkomulagi við Boeing vegna kyrrsetningar MAX flugvélanna. Samningaviðræður við ríkið um ríkisábyrgð standa yfir.

Samkvæmt samkomulaginu við Boeing Icelandair mun falla frá kaupum á fjórum flugvélum og áætlun um afhendingu sex flugvéla sem eru útistandandi hefur verið breytt.

Samkomulagið felur einnig í sér frekari bætur frá Boeing vegna stórs hluta þess tjóns sem Icelandair hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningarinnar, eins og það er orðað í yfirlýsingu.

Í yfirlýsingunni frá félaginu segir að samkomulagið sé að öðru leyti trúnaðarmál. Nú standi til að birta fjárfestakynningu með ítarlegum upplýsingum fyrir fjárfesta og þátttakendur í fyrirhuguðu hlutafjárútboði.

Viðræður um slíka lánalínu á milli Icelandair og ríkisins, í samvinnu við Íslandsbanka og Landsbankann, eru langt komnar samkvæmt yfirlýsingunni.

Einnig er búið að semja við kröfuhafa Icelandair og snúa þeir samningar að því að laga afborganir að væntu sjóðstreymi frá rekstri félagsins. Þeir samningar munu vera háðir því að markmið Icelandair um öflun nýs hlutafjár gangi eftir og að félagið geri samning um lánalínu með ríkisábyrgð.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir í yfirlýsingunni að samningar þessir og langtímasamningar við flugséttir, sé mikill áfangasigur fyrir félagið.

„Allt eru þetta mikilvægir þættir í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins sem nú er á lokastigi. Mikil vinna hefur átt sér stað á liðnum mánuðum við að endurskipuleggja rekstur Icelandair Group og búa félagið undir sókn á nýjan leik. Þar hafa starfsmenn félagsins unnið mikið þrekvirki. Þessi vinna mun án efa styrkja það fjárfestingartækifæri sem við munum bjóða í komandi hlutafjárútboði sem og rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×